463 atkvæði skilja á milli

AFP

Aðeins 463 atkvæði skilja á milli í Georgíu en þar er talningu að ljúka. Donald Trump Bandaríkjaforseti leiðir en sífellt minnkar munurinn á milli hans og Joe Biden í ríkinu.

Þær tvær sýslur sem eiga eftir að telja flest atkvæði eru Gwinnett og Clayton, með um 2.500 ótalin atkvæði.

Í einhverjum sýslum var talningu hætt tímabundið í nótt en ekki í Clayton, sem er hluti af heimahéraði John Lewis heitins. Þar er Biden með um 85% atkvæða en Trump 14%.

Frétt CBS News

Yfirmaður kjörstjórnar í Clayton-sýslu, Shauna Dozier, segir í samtali við CNN að hún eigi von á að talningu ljúki fljótlega. „Við verðum hér þangað til öll utankjörfundaatkvæði hafa verið talin,“ segir Dozier í viðtalinu sem var tekið um 2 í nótt að staðartíma.  

Við gerum okkar besta til að tryggja að við náum að telja hvert og eitt einasta atkvæði. „Hvað sem gera þarf til þess að svo verði munum við gera.“

Frétt NYT

Samkvæmt Guardian geta bæði Donald Trump og Joe Biden farið með sigur af hólmi. Biden þarf að sigra í tveimur ríkjum – það er tveimur þessara ríkja: Arizona, Norður-Karólínu, Nevada og Georgíu. Eða sigra í Pennsylvaníu. 

Donald Trump þarf aftur á móti að sigra í þremur af þessum fjórum og í Pennsylvaníu til þess að vera endurkjörinn forseti. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert