Þýska lögreglan hefur gert húsleit á nokkrum stöðum í morgun í tengslum við hryðjuverkaárásina í Vín á mánudag.
Í færslu sakamáladeildar þýsku alríkislögreglunnar (Bundeskriminalamt) á Twitter kemur fram að leitað hafi verið á heimilum og fyrirtækjum í eigu fjögurra einstaklinga í Osnabrück, Kassel og Penneberg-svæðinu. Ekki er talið að fólkið hafi átt aðild að árásinni en mögulega haft tengsl við árásarmanninn.
Að sögn BKA voru aðgerðirnar að beiðni austurrískra yfirvalda. Árásarmaðurinn, Kujtim Fejzulai, var skotinn til bana af lögreglu eftir að hafa skotið fjórar manneskjur til bana í miðborg Vínar. Fejzulai var tvítugur að aldri og með austurrískt og makedónskt ríkisfang.
Austurríska lögreglan handtók 14 einstaklinga í kjölfar árásarinnar. Þýski fjölmiðillinn Der Spiegel hafði greint frá því fyrr í vikunni að árásarmaðurinn hafi verið í sambandi við þýska íslamista þegar hann reyndi að komast til Sýrlands. Þar ætlaði hann að ganga til liðs við vígasamtökin Ríki íslams.
Rannsókn árásarinnar í Vín nær einnig til Sviss en ríkissaksóknari þar hefur staðfest að tveir Svisslendingar, 18 og 24 ára, hafi verið handteknir á miðvikudag. Þeir hafa áður tengst saknæmu athæfi í tengslum við hryðjuverkaógn.
Anschlagsgeschehen in Wien
— Bundeskriminalamt (@bka) November 6, 2020
BKA-Kräfte durchsuchen seit heute Morgen im Auftrag des @GBA_b_BGH & mit Unterstützung von Polizeikräften aus NI, HE, SH sowie der BPol (GSG9) die Wohn-& Geschäftsräume von 4 nicht tatverdächtigen Personen in Osnabrück, Kassel sowie im Kreis Pinneberg. pic.twitter.com/KI4RTKWAaV