Leyniþjónustan sem gætir Bandaríkjaforseta, Secret Service, hefur aukið öryggisgæslu umhverfis Joe Biden, forsetaframbjóðanda demókrata, á sama tíma og vaxandi líkur eru á að hann verði næsti forseti Bandaríkjanna.
Sérstök lífvarðasveit var send til höfuðstöðva framboðs Bidens í Wilmington í Delaware í morgun, en búist er við því að Biden muni jafnvel lýsa yfir sigri í dag.
Dagblaðið Washington Post hefur greint frá þessu.
Leyniþjónustan, sem heyrir undir ráðuneyti heimavarnarmála, hefur meðal annars það hlutverk að gæta Hvíta hússins og æðstu embættismanna.
Þegar höfðu lífverðir á vegum hennar verið sendir út til að gæta varaforsetans fyrrverandi snemma í júlí, eftir að hann sigraði í forvali demókrata.