Ríkisstjórn Austurríkis ætlar að loka moskum í landinu þar sem öfgasinnar ráða ríkjum. Er þetta gert í kjölfar mannskæðar árásar í Vín á mánudag. Þýska lögreglan gerði húsleit á nokkrum stöðum í morgun að beiðni yfirvalda í Austurríki í tengslum við árásarmanninn.
Í Frakklandi verða þrjú ungmenni leidd fyrir dómara í dag í tengslum við rannsókn á hrottalegu drápi á sögukennara í úthverfi Parísar nýverið.
Unga fólkið, tveir 18 ára piltar og 17 ára stúlka, var handtekið á þriðjudag og eiga yfir höfði sér ákæru um að aðstoða hryðjuverkamann.
Samuel Paty var afhöfðaður af 18 ára gömlum pilti sem hafði búið í Frakklandi ásamt fjölskyldu sinni frá sex ára aldri. Morðinginn, sem var fæddur í Moskvu en átti ættir að rekja til Tsjetsjeníu, framdi ódæðið eftir herferð á samfélagsmiðlum gegn kennaranum fyrir að hafa sýnt nemendum sínum skopteikningar af Múhameð spámanni í tengslum við kennslu um tjáningarfrelsið. Skopteikningarnar voru birtar í ádeiluritinuCharlieHebdo.
Drápið vakti mikla reiði meðal almennings í Frakklandi og hét forseti Frakklands, Emmanuel Macron, að elta uppi íslamska öfgasinna og stöðva ofbeldi þeim tengdum í landinu.
Ungu mennirnir tveir eru taldir hafa skipst á skilaboðum við morðingja Patys, Abdullakh Anzorov, sem var skotinn til bana af lögreglu eftir árásina. Þeir voru handteknir í austurhluta Frakklands. Áður hafa sjö verið ákærðir í tengslum við morðið á Paty, þar á meðal tveir unglingar, 14 og 15 ára, sem eru grunaðir um að hafa bent morðingjanum á Paty.