Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann hafi unnið forsetakosningarnar „auðveldlega“ ef aðeins eru talin „lögleg atkvæði“. Trump ávarpaði bandarísku þjóðina í Hvíta húsinu nú klukkan 23:30, í fyrsta sinn frá því í gærmorgun.
Trump hélt uppteknum hætti og sakaði kjörstjórnir í þeim ríkjum sem enn eiga eftir að birta úrslit um víðfeðm kosningasvik. Þessum deildum væri enda öllum stjórnað af demókrötum. Trump fór yfir það hvernig hann hefði haft forskot í Georgíu, Michigan og Wisconsin á kosninganóttu en sagði forskotið síðar hafa „horfið“ á óskiljanlegan hátt.
Sannleikurinn er þó sá, eins og flestir vita, að demókratar voru líklegri en repúblikanar til að kjósa utan kjörfundar. Var því útséð löngu fyrir kosningar að hagur Bidens myndi vænkast eftir því sem utankjörfundaratkvæðin, sem jafnan eru talin síðust, detta inn.
Þrátt fyrir að furða sig á sviptingum í þessum ríkjum, virtist Trump ekki gera athugasemd við það að hann hefur sjálfur sótt á í Arizona, ríki þar sem Biden var með gott forskot í gær og fjölmiðlar á borð við AP og Fox höfðu þegar lýst yfir sigri Bidens. „Við erum á góðri leið í að halda Arizona,“ sagði Trump, sem vann í ríkinu fyrir fjórum árum.
Í ræðunni gróf forsetinn ítrekað undan trúverðugleika kosninganna. Sagðist hann aldrei hafa fundið fyrir jafnmiklum kærleik, ást og innblæstri og nú. Fólk hringdi inn úr öllum landshornum og vildi hjálpa til að verja kosningarnar.
„Við munum ekki leyfa spillingunni að stela kosningunum. Þeir eru að reyna að stela kosningunum. Þetta er að gerast fyir framan augun á fólki og allir sjá það,“ sagði Trump.
Trump fór hörðum orðum um fjölmiðla, stór tæknifyrirtæki og stórlaxana á Wall Street, sem hann sakaði um söguleg inngrip í kosningarnar. Þá sagði hann fjölmiðla og skoðanakannanafyrirtæki hafa vísvitandi birt spár sem komu verr út fyrir hann en raunin varð. Nefndi hann sem dæmi könnun Washington Post í Wisconsin fyrir kosningar sem sýndi Biden með 17 prósentustiga forskot í ríkinu. Þegar til kastanna kom var sigur Bidens þó mun minni. „Þetta vissu þeir [hjá Washington Post. Þeir eru ekki heimskir,“ sagði forsetinn.
Það er rétt að árangur Trumps í ýmsum ríkjum hefur verið betri en flestar kannanir gerðu ráð fyrir. Þannig var búist við að Biden hefði sigur í Flórída en annað kom á daginn. Trump vann þar með 3,5 prósentustigum.
Trump nefni í ræðu sinni að allt stefndi í að hann fengi hæsta hlutfall atkvæða sem Repúblikani hefur fengið frá kjósendum sem ekki eru hvítir í 60 ár. „Demókratar eru flokkur hinna ríku. Við erum flokkur samstöðunnar (e. inclusion).“ Eftir sem áður er fylgi repúblikana þó mest meðal hvítra.