Hver er Kamala Harris?

Kamala Harris hefur stigið upp metorðalistann undanfarin ár og hefur …
Kamala Harris hefur stigið upp metorðalistann undanfarin ár og hefur á þeirri vegferð sinni meðal annars verið yfirsaksóknari í San Francisco, ríkissaksóknari Kaliforníu og öldungadeildarþingmaður ríkisins. Nú er komið að Hvíta húsinu. AFP

Eftir að allir helstu fjölmiðla Bandaríkjanna lýstu því yfir í dag að Joe Biden hefði unnið forsetakosningarnar eru allar líkur á því að öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris verði næsti varaforseti landsins og fyrsta konan til að gegna því embætti í Bandaríkjunum. Ekki nóg með það heldur verður hún jafnframt fyrsti varaforsetinn úr röðum minnihlutahópa í landinu. En hver er Harris?

mbl.is hefur ítarlega fjallað um Harris áður eins og lesa má í fréttinni hér að neðan:

Saksóknari  ríkissaksóknari  öldungadeildarþingmaður  varaforseti

Harris fæddist 20. október 1964 í Oakland í Kaliforníu, en á þeim tíma var þar mikill suðupottur mannréttinda og hernaðarandstöðu. Hún lauk námi frá Howard University í Washingtonríki. Varð hún síðar saksóknari og síðar yfirsaksóknari í San Francisco og síðar ríkissaksóknari í Kaliforníu árið 2010. Varð hún þar með fyrsti svarti ríkissaksóknari ríkisins.

Sem ríkissaksóknari kynntist hún meðal annars syni Bidens, Beau Biden, sem var ríkissaksóknari í Delaware, en hann lést árið 2015 vegna krabbameins.

Árið 2016 bauð hún sig fram í öldungadeildina og hlaut brautargengi, en Harris varð önnur svarta konan til að vera kosin í öldungadeildina frá upphafi. Harris á auk þess ættir að rekja til Suður-Asíu, en móðir hennar kom sem innflytjandi til Bandaríkjanna frá Indlandi árið 1958, en faðir hennar kom frá Jamaíku árið 1961.

Kamala Harris.
Kamala Harris. AFP

Biden valdi Harris þrátt fyrir að þeim hefði lent saman

Harris ákvað svo að bjóða sig fram sem forsetaefni í forvali Demókrataflokksins þar sem Biden var einn mótframbjóðenda hennar. Lenti þeim meðal annars saman í fyrstu kappræðunum þar sem hún gagnrýndi Biden fyrir andstöðu sína á áttunda áratugnum við að samþykkja lög sem áttu að þvinga skóla til frekari aðlögunar kynþátta.

Þrátt fyrir uppákomuna ákvað Biden að velja Harris sem varaforsetaefni sitt og er hún talin hafa komið með talsverða orku inn í framboð Bidens. Nánar má lesa um feril Biden í þessari frétt.

Forsetaframboð 2024?

Kjör hennar sem varaforseti er af mörgum talið skref í áttina að hennar eigin forsetaframboði, en jafnvel hefur verið talið að Biden muni aðeins sitja eitt kjörtímabil, en hann er í dag 77 ára gamall. Fengi hún stuðning Demókrataflokksins í framboð eftir fjögur ár ætti hún möguleika á að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna, en Hillary Clinton átti fyrst möguleika á því árið 2016 þegar hún tapaði á móti Donald Trump.

Kamala Harris og Joe Biden ganga af sviði eftur ávörp …
Kamala Harris og Joe Biden ganga af sviði eftur ávörp sín í Delaware í gær. Síðar í kvöld áformar Biden að flytja ávarp sitt til þjóðarinnar eftir að helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna lýstu hann sigurvegara kosninganna. AFP

Í kosningabaráttunni hefur Harris meðal annars gagnrýnt Trump fyrir það hvernig hann hefur stýrt stefnu Bandaríkjanna í Covid-19-faraldrinum, sem og efnahagsmálum, og áherslur hans í innflytjendamálum. Hefur hún jafnframt gagnrýnt hann fyrir ummæli hans sem hún hefur sagt vera rasísk.

Þá má geta þess að með þessu tímamótakjöri verður eiginmaður Harris, Doug Emhoff, fyrsti eiginmaður varaforseta í sögu Bandaríkjanna, en það útleggst á aðeins áhugaverðari hátt á ensku: first „second husband“. Harris og Emhoff giftust árið 2014, en það var fyrsta hjónaband Harris og annað hjónaband Emhoffs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert