Hver er staðan á fimmta degi?

Stuðningsmenn Trumps forseta mótmæla við talningarstað í Clark-sýslu í Nevada.
Stuðningsmenn Trumps forseta mótmæla við talningarstað í Clark-sýslu í Nevada. AFP

Upp er runninn fjórði dagur eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum og enn telja menn atkvæði. Raunar er talning atkvæða á lokametrunum í öllum ríkjum Bandaríkjanna, en í langflestum er munurinn milli frambjóðenda það mikill að tölfræðideildir helstu miðla hafa þegar lýst yfir sigurvegara. Aðeins í fimm ríkjum þykir óvíst að segja til um úrslitin.

Georgía

Joe Biden, frambjóðandi demókrata, hefur tekið forskotið í talningu atkvæða í Georgíu þegar rúmlega 99% atkvæða hafa verið talin. Talið er að um tíu þúsund kjörseðlar séu eftir, en þeir gætu verið fleiri.

Forskot Bidens í Georgíu nemur núna um 4.400 atkvæðum, og hefur aukist um 6.000 atkvæði frá því fyrir sólarhring. Nærri fimm milljónir atkvæða voru greiddar svo ekki er forskotið mikið. Þegar hefur verið gefið út að atkvæði verði talin aftur þar sem svo litlu munar. Af þeim sökum er ólíklegt að nokkur stór fjölmiðill vestanhafs muni þora að taka af skarið og spá fyrir um sigurvegara á næstunni. Sennilega munu önnur ríki verða fyrri til að útkljá slaginn.

Síðasti forsetaframbjóðandi demókrata til að bera sigur úr býtum í ríkinu var Bill Clinton, árið 1992.

Arizona

Joe Biden hefur enn forskot á forsetann sitjandi í Arizona, en það hefur þó minnkað töluvert á undanförnum sólarhringum.

Einmitt núna nemur forskotið um 29 þúsund atkvæðum.

Fox News og AP-fréttaveitan fullyrtu strax á miðvikudag að Biden myndi fara með sigur af hólmi í ríkinu. Þær fullyrðingar hafa síðar reynst ansi djarfar, enda hefur enginn annar stór fjölmiðill vestanhafs enn þorað að fylgja í fótspor þeirra.

Nevada 

Í Nevada leiðir Biden með 22.700 atkvæðum þegar 93% atkvæða hafa verið talin.

Rúmlega 93 þúsund atkvæði eru ótalin og næstum öll þeirra eru frá Clark-sýslu, þar sem Las Vegar er, en sýslan hefur verið sterkt vígi demókrata í ríkinu. Allt útlit er því fyrir að Biden hafi betur í ríkinu og furða margir sig á að helstu miðlar hafi ekki tekið af skarið og lýst hann sigurvegara.

Pennsylvanía

Allra augu eru á Pennsylvaníu, ríkinu með 20 kjörmenn. Þar hafa 96% atkvæða verið talin og hefur Biden 28 þúsund atkvæða forskot, eða sem nemur 0,5 prósentustigum. Þegar fyrstu atkvæði bárust hafði Trump gott forskot, en eftir því sem utankjörfundaratkvæðin fóru að streyma inn minnkaði forskotið hratt og það var loks í gær sem Biden tók fram úr forsetanum.

Hátt í 200 þúsund atkvæði standa þar eftir ótalin. Mörg þeirra koma frá svæðum þar sem demókratar hafa notið mjög góðs fylgis, til að mynda í Philadelphiu og í Pittsburgh. Enn furða menn sig á að miðlar hafi ekki lýst hann sigurvegara. Sennilega hafa þeir þó gildar ástæður. Að lýsa yfir sigri frambjóðanda er stór ákvörðun.

Um leið og Biden verður talinn munu bera sigur úr býtum í Pennsylvaníu munu tuttugu kjörmenn ríkisins sjá til þess að hann verði um leið talinn næsti forseti Bandaríkjanna. Má hann þá engu skeyta um öll hin ríkin sem eftir eru.

Norður-Karólína

Í Norður-Karólínu leiðir Donald Trump með 76 þúsund atkvæðum, þegar 98% atkvæða hafa verið talin. Frekar er gert ráð fyrir að hann beri sigur úr býtum í ríkinu. Það dugir þó skammt.

Alaska

Talningu í Alaska miðar fremur hægt. Aðeins hafa um 56% atkvæða verið talin og engar nýjar tölur borist síðasta sólarhringinn. Spennan er þó lítil. Trump forseti leiðir með 62,9% gegn 33% Joe Biden. Ríkið er enda eitt sterkasta vígi repúblikana en það hefur ekki kosið forseta demókrata frá því John F. Kennedy var í framboði árið 1960.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert