Madison Cawthorn er nýr á sviði stjórnmálanna og um leið yngstur til þess að vera kjörinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings frá árinu 1965.
Cawthorn, sem varð 25 ára í ágúst, hafði betur í forvali repúblikana í Norður-Karólínu, 11 kjördeild, í júní en þar fór hann fram gegn Lynda Bennett sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði mælt með.
Á þriðjudag gerði Madison Cawthorn enn betur og sigraði með frambjóðanda demókrata, Moe Davis. Cawthorn fékk 54% atkvæða.
Til þess að vera kjörgengur þurfa frambjóðendur að vera orðnir 25 ára gamlir og aðeins tveir þingmenn hafa verið yngri en Cawthorn til þess að vera kjörnir í fulltrúadeildina. Jed Johnson Jr, þingmaður Tennessee, sem sór embættiseið sjö dögum eftir 25 ára afmælisdaginn árið 1965, og William Charles Cole Claiborne, sem einnig var þingmaður Tennessee. Hann var kjörinn á þing árið 1797 og var annað hvort 21 eða 22 ára samkvæmt skrám fulltrúadeildarinnar. Aftur á móti kemur fram á grafreit hans að hann hafi verið 23 ára þegar hann var kjörinn á þing, að því er segir í frétt BBC.
Nú er talað um Cawthorn sem rísandi stjörnu í Repúblikanaflokknum en hann hefur getið sér gott orð sem fyrirlesari og fjárfestir. Þegar hann atti kappi við Bennett í sumar gagnrýndi hann hana fyrir að neita að mæta honum í kappræðum. Hann hefur ítrekað lýst yfir stuðningi við Donald Trump þrátt fyrir stuðning forsetans við Bennett.
Cawthorn lamaðist í bílslysi árið 2014. Hann segist hafa ákveðið að leggja stjórnmál fyrir sig til að berjast gegn vinstrisinnuðu fólki á þingi. Svo sem Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, og Alexandriu Ocasio-Cortez, sem var þangað til núna yngsti þingmaðurinn í fulltrúadeildinni. Hún var kjörin á þing árið 2018, 29 ára gömul.
Cawthorn segir að trú okkar, frelsi og gildi eigi undir högg að sækja vegna árása af hálfu elítunnar og vinstri sinnaðra stjórnmálakvenna eins og Nancy Pelosi og Alexandria Ocasio-Cortez.
Cawthorn var aðstoðarmaður Mark Meadows á þingi en Meadows er nú starfsmannastjóri forsetans. Meadows studdi einnig Bennett í forvalinu í sumar. Cawthorn stundaði nám í stjórnmálafræði við Patrick Henry College, sem er kristilegur skóli í Virginíu, en hætti námi eftir eina önn. Árið 2017 var haft eftir honum að slysið hefði dregið úr námsgetu hans.
Hann á fjárfestingafyrirtækið SPQR LLC en fyrirtækið skilar engum tekjum samkvæmt skráningu eigandans og eina starfsmannsins, Cawthorn.
Árið 2017 var Cawthorn gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla eftir að hann heimsótti Arnarhreiðrið, orlofshús Adolfs Hitlers í Þýskalandi.
Cawthorn skrifaði á Instagram: „Orlofshús foringjans. Að heimsækja Arnarhreiðrið hefur verið á lista yfir það sem ég vildi gera í töluverðan tíma. Það olli ekki vonbrigðum.“
Hann hefur ítrekað verið sakaður um að trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins en neitar því alfarið. Cawthorn skrifaði á Facebook um heimsóknina í Arnarhreiðrið og sagði að hann hafi haft söguna í huga þegar færslan var rituð. Á stað þar sem nasistar lögðu á ráðin um illvirki sín.
Gagnrýnendur Cawthorn hafa einnig sakað hann um misvísandi upplýsingar hvað varðar inngöngu skóla bandaríska sjóhersins áður en hann lenti í slysinu.
Á vef sínum segir Cawthorn að hann hafi fengið inngöngu en þær áætlanir hafi orðið að engu eftir bílslysið. En í framburði frá 2017 játar hann að umsókn hans hafi verið hafnað áður en hann lenti í slysinu. Fyrr á árinu sökuðu nokkrar konur Cawthorn um ósæmilega hegðun á námsárunum en hann neitar því staðfastlega.