Á fjórða hundrað manns hafa verið handteknir í mótmælum í Hvíta-Rússlandi í dag. Mótmælendur, sem skipta þúsundum, hafa komið saman í höfuðborginni Minsk og fleiri borgum enn einn daginn til að láta í ljós andstöðu sína við endurkjör Alexanders Lukasjenkós í embætti forseta í ágúst.
Alþjóðasamfélagið hefur ekki viðurkennt úrslit kosninganna og sagt niðurstöður þeirra falsaðar. Opinberar tölur segja forsetann hafa fengið um 80% greiddra atkvæða, en hans helsta mótframbjóðanda, Svetlönu Tikhanovskayu, um 10%.
Mannréttindasamtökin Viasna segja að 340 hið minnsta hafi verið handteknir í dag, þeirra á meðal blaðamenn og afreksíþróttamenn.