Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, tilkynnti í sjónvarpsviðtali í dag að Aserar hefðu náð borginni Shusha, einnig þekktri sem Shushi í Armeníu, á sitt vald, en um er að ræða eina af lykilborgum í héraðinu Nagornó-Karabak, þar sem nú standa yfir átök á milli Armeníu og Aserbaídsjan.
Armenar neita hins vegar fréttunum og segja að átök eigi sér enn stað í borginni.
Yfirráð yfir borginni væri stórsigur fyrir Asera í héraðinu umdeilda, en borgin er í hæðunum fyrir ofan höfuðborg svæðisins, Stepanakert, þekkta sem Khankendi af Aserum og á leiðinni milli Stepanakert og landamæra Armeníu.
Armenía og Aserbaídsjan hafa deilt um héraðið Nagornó-Karabak í áratugi og áður hefur komið til átaka líkt og nú. Ríflega þúsund hafa farist í átökunum síðan þau hófust í september, bæði hermenn og óbreyttir borgarar og þá hafa borist fregnir af því að blaðamenn á svæðinu, hvaðanæva úr heiminum, hafi særst.