Joe Biden mun ávarpa bandarísku þjóðina klukkan 20:00 að staðartíma í Chase Center í Wilmington í Delaware, heimaríki sínu, á eftir en það er klukkan 01:00 að íslenskum tíma. Varaforsetaefni Bidens, Kamala Harris, mun einnig flytja ávarp á eftir.
Fyrr í dag lýstu allir helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna yfir sigri Bidens í forsetakosningum þar vestanhafs. Hægt verður að fylgjast með ávarpinu hér að neðan.
Eftir að tilkynnt var um sigur Bidens brutust út mikil fagnaðarlæti víða í Bandaríkjunum og safnaðist fólk meðal annars saman fyrir utan Hvíta húsið.
Í desember munu kjörmenn koma saman og kjósa forseta formlega og er embættistaka svo 20. janúar.
Donald Trump, sitjandi forseti, hefur enn ekki viðurkennt ósigur og hefur Rudy Giuliani, lögmaður Trumps, boðað málaferli vegna kosninganna á mánudaginn.