George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, ræddi í dag við Joe Biden, en Biden hefur verið lýstur sigurvegari kosninganna af öllum helstu fjölmiðlum Bandaríkjanna. Í tilkynningu frá Bush kemur fram að hann hafi óskað Biden til hamingju og þakkað honum fyrir föðurlandsleg skilaboð í sigurræðu sinni í gær.
Þá segir Bush að hann hafi einnig hringt í Kamölu Harris, varaforsetaefni Biden, og óskað henni til hamingju með sögulegan áfanga.
„Þrátt fyrir pólitískan mun veit ég að Joe Biden er góður maður sem hefur fengið tækifæri til að leiða og sameina þjóð okkar,“ segir Bush í skilaboðunum og bætir við að hann hafi jafnframt boðið honum alla þá aðstoð sem hann geti veitt, líkt og hann gerði við Donald Trump og Barack Obama, þegar þeir voru kjörnir.
Þá óskar Bush Trump til hamingju með harða baráttu og að hafa hlotið meira en 70 milljónir atkvæða. „Ótrúlegt pólitískt afrek,“ segir Bush.
Bush telur að mikil þátttaka í kosningunum sé heilsumerki fyrir lýðræði landsins, óháð því hverjum kjósendur greiddu atkvæði sitt. Segir hann að Bandaríkjamenn geti jafnframt verið vissir um að kosningarnar hafi í grunnatriðum verið réttmætar og að úrslitin séu skýr.
Statement by President George W. Bush: https://t.co/Bsbv8k1nho pic.twitter.com/O7CLtEvxk0
— George W. Bush Presidential Center (@TheBushCenter) November 8, 2020