Þróun bóluefnis við kórónuveirunni hefur „rutt úr vegi gríðarlega mikilvægri hindrun en þær eru fleiri fram undan“ að sögn Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands. Þó væri brýnt að fagna ekki sigri of snemma í baráttunni við kórónuveiruna, því boltinn væri „ekki kominn í netið“.
Johnson ávarpaði þjóð sína fyrr í kvöld. Sagðist hann fagna fyrstu niðurstöðum úr prófunum á bóluefni við veirunni sem er í sameiginlegri þróun hjá lyfjafyrirtækinu Pfizer og líftæknifyrirtækinu BioNTech, en bætti við að prófanir væru aðeins á frumstigi. Hann varaði Breta við því að „reiða sig á þessar fréttir sem lausn“ við faraldrinum.
Jonathan Van-Tam, einn helsti ráðgjafi breskra stjórnvalda í heilbrigðismálum, svaraði spurningum blaðamanna ásamt Johnson. Van-Tam sagðist vongóður um að þróun bóluefnis gæti lokið fyrir jól og að betri tímar kæmu með næsta vori. Þá sagði hann að aldur myndi hafa mikil áhrif þegar ákveðið yrði hverjir yrðu í forgangi þegar bóluefni yrði tiltækt.
Einstaklingar búsettir á öldrunar- eða hjúkrunarheimilum verða þannig settir í forgang þegar bólusetningar hefjast. Þá er heilbrigðisstarfsfólk í öðru sæti forgangslistans.
Van-Tam greip til líkinga úr íþróttamáli og sagði að fréttir af bóluefni nú væru ekki ólíkar því að „vera búin að spila uppbótartíma í úrslitaleiknum, leikurinn er farinn í vítaspyrnukeppni, fyrsti leikmaðurinn stígur upp og skorar mark. Þú ert ekki búinn að vinna bikarinn, en þetta segir þér að það er hægt að sigrast á markmanninum“.
Johnson sagðist vera hóflega bjartsýnn á þróun faraldursins á næsta ári en hann vildi ekki að almenningur teldi að lausnin væri komin í heimahöfn, fréttir af bóluefni væru ekki örugg troðsla og boltinn væri enn ekki kominn í markið.