Segir líkur á eðlilegu lífi fyrir næsta vor

Óperugestir grímuklæddir í Bandaríkjunum.
Óperugestir grímuklæddir í Bandaríkjunum. AFP

Prófessor í læknisfræði við Oxford-háskóla hefur nokkra trú á því að lífið geti aftur farið að ganga sinn vanagang fyrir næsta vor. Sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) varar við því að bóluefni muni ekki breyta stöðunni algjörlega. BBC greinir frá.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur bólu­efni við kór­ónu­veirunni sem er í sam­eig­in­legri þróun hjá lyfja­fyr­ir­tæk­inu Pfizer og líf­tæknifyr­ir­tæk­inu Bi­oNTech í 90% til­vika komið í veg fyr­ir Covid-19-smit í þriðja fasa lyfjaþró­un­ar­. 

Spáir nokkurra mánaða bið eftir bóluefninu

David Nabarro, sérfræðingur WHO í Covid-19, segir að það séu frábærar fréttir en bóluefni muni ekki beyta stöðunni algjörlega. Hann sagði mikilvægt að áfram reyndu stjórnvöld og almenningur að hægja á útbreiðslu veirunnar, jafnvel þótt bóluefni verði bráðum aðgengilegt. 

„Ég vil bara ítreka að þessi grundvallaratriði sem við höfum verið að vinna út frá eru enn algjörlega nauðsynleg, jafnvel þótt bóluefni verði tiltækt á næstu mánuðum,“ sagði Nabarro. 

„Bóluefni mun hjálpa en það breytir stöðunni ekki algjörlega.“

Þá sagði Nabarro að bóluefnið ætti enn eftir að fara í gegnum ýmis ferli til að fá samþykkt og að það þyrfti alltaf að taka „mörg skref“ áður en yfirvöld gætu dæmt bóluefni „öruggt og gagnlegt“. Nabarro spáði því að það myndi í það minnsta taka nokkra mánuði. 

Bretar gætu fengið fleiri en eitt bóluefni á nýju ári

John Bell, læknisfræðiprófessor við Oxford-háskóla, er þó bjartsýnni en Nabarro. Hann sagði í samtali við BBC í dag að hann hefði nokkra trú á því að lífið gæti orðið eðlilegt fyrir næsta vor. Þá ættu Bretar að geta fengið fleiri en eitt bóluefni á nýju ári.

„Það er mjög stutt [í bóluefnið],“ sagði Bell. „Það er mjög mikilvægt vegna þess að það er engin önnur augljós leið til þess að ná tökum á þessu.“

Spurður hvort það þýddi að lífið gæti orðið eðlilegt fyrir næsta vor sagði hann „Já, já, já. Ég er örugglega sá fyrsti sem segir það en ég segi það með nokkurri vissu.“

Hann bætti því við að hann væri afar ánægður með niðurstöðurnar.

„Þær sýna að það er hægt að búa til bóluefni gegn þessi litla kvikindi.“

Lifandi streymi BBC um Covid-19

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert