Boris óskar Biden til hamingju með sigurinn

Boris Johnson forsætisráðherra Breta ræddi við Joe Biden, verðandi forseta, …
Boris Johnson forsætisráðherra Breta ræddi við Joe Biden, verðandi forseta, í dag. Ljósmynd/Downingstræti 10

Joe Biden forsetaefni hringdi um teleytið í dag í Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Óskaði Boris Biden til hamingju með sigurinn í kosningunum í liðinni viku. Þeir hétu því að þróa samstarf landa sinna frekar.

Johnson greindi frá þessu á Twitter. „Ég hlakka til að styrkja tengslin milli landa okkar og að vinna með honum að sameiginlegum forgangsverkefnum – að fást við loftslagsbreytingar, efla lýðræðið og byggja betur upp eftir heimsfaraldurinn.“

Símtalið hófst um fjögurleytið og stóð yfir í tæpan hálftíma. Í tilkynningu frá Downingstræti sagði að Johnson hefði óskað honum innilega til hamingju með sigurinn og beðið fyrir áranaðaróskir til varaforsetaefnisins Kamölu Harris fyrir „sögulegt afrek“ hennar. Hún verður fyrsta konan og fyrst þeldökkra til þess að gegna varaforsetaembætti vestra.

Talsmaður forsætisráðherrans í Downingstræti 10 sagði ennfremur að þeir Johnson og Biden hefðu rætt langvinn og náin tengsl ríkjanna og hétu hvor öðrum því að byggja frekar á því samstarfi á næstu árum, til dæmis á sviði viðskipta og öryggismála, þar á meðal á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Johnson bauð Biden að koma til COP26, leiðtogafundar um loftslagsmál, sem Bretar halda í Glasgow að ári, en jafnframt kváðust báðir hlakka til þess að hittast augliti til auglitis, ekki síðar en á G7 leiðtogafundinum um mitt næsta ár, sem einnig fer fram í Bretlandi á ári komanda.

Ýmsir hafa látið í ljós efasemdir um að með þeim Boris Johnson og Joe Biden náist jafnnáin samvinna og Johnson tókst með Donald Trump, en því vísa breskir ráðherrar á bug, og segja góðan anda ríkja milli þeirra. Þá lásu ýmsir skilaboð úr því að Biden hringdi í Johnson fyrstan Evrópuleiðtoga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert