Manndráp og kosningasvindl

Steve Bannon.
Steve Bannon. AFP

Facebook hefur nú fylgt í fótspor Twitter og YouTube og fjarlægt nokkrar síður sem tengjast fyrrverandi ráðgjafa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, Steve Bannon. Ástæðan eru síendurteknar órökstuddar ásakanir um kosningasvindl.

Samkvæmt mannréttindasamtökunum Avaaz fjarlægði Facebook nokkrar síður sem voru beintengdar Bannon. Alls voru fylgjendur þeirra 2,45 milljónir talsins. Avaaz tilkynnti síðurnar til Facebook á föstudag. 

Talsmaður Avaaz segir að samtökin hafi fyrr á árinu orðið vör við að einhverjar þeirra væru ítrekað að birta upplýsingaóreiðu um svindl við atkvæðagreiðslu og í síðustu viku hafi heimsóknir á þessar síður verið yfir 10 milljónir talsins. 

AFP

Talsmaður Facebook segir að ákveðið hafi verið að fjarlægja nokkrar tengdar síður meðal annars vegna þess hvaða aðferðum var beitt til þess að fleiri sæju efnið sem þar birtist.

Síðurnar sem voru fjarlægðar báru nöfn eins og: Conservative Values, The Undefeated, We Build the Wall Inc, Citizens of the American Republic og Trump at War.

Árið 2016 var Steve Bannon sakaður um að hafa nýtt sér gögn úr algrími (e. algorithm ) Facebook í pólitískum tilgangi fyrir framboð Trump. Undanfarna mánuði hafa síður og hópar sem tengjast Bannon nýtt sér tæknina til að láta efni þar sem fjallað er um kosningasvindl og aðra upplýsingaóreiðu ná til milljóna notenda Facebook, segir Fadi Quran, herferðarstjóri Avaaz.

Nú reynir hann að sundra Bandaríkjunum enn frekar og dreifa óreiðu eftir kosningar og aftur notar hann Facebook til þess segir Quran.

„Loksins grípur Facebook til aðgerða eftir þrýsting frá Avaaz en spurningin er: Hvers vegna greip fyrirtækið ekki til aðgerða fyrr?“ segir Quran.

Wray og Fauci yrðu afhöfðaðir

Framkvæmdastjóri FBI, Christopher Wray.
Framkvæmdastjóri FBI, Christopher Wray. AFP

Facebook hefur hert reglurnar sem gilda varðandi upplýsingaóreiðu og reyndi að stöðva slíkt efni fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum. Meðal annars lokaði Facebook síðu sem nefnist Stop the Steal eftir kosningarnar á þriðjudag en fylgjendur síðunnar voru um 350 þúsund talsins á fimmtudag. Þar var fólk hvatt til þess að mótmæla í lykilríkjum þar sem mjótt var á munum og talning stóð enn yfir. Fólk var hvatt til að beita ofbeldi og fleira við mótmæli við talningarstaði.

Twitter og YouTube lokuðu á Bannon eftir að hann lagði til að háttsettir bandarískir embættismenn yrðu drepnir. Twitter-síðunni @WarRoomPandemic, heiti hlaðvarps Bannons, var lokað til frambúðar fyrir að brjóta gegn reglum Twitter. Einkum og sér í lagi fyrir að vegsama ofbeldi.

YouTube vísaði í sömu ástæðu og beitti Bannon refsiaðgerðum. Þrátt fyrir það er rásin Steve Bannon's War Room enn virk og er með 200 þúsund áskrifendur.

Meðal þess sem síður Bannons hafa hvatt til er að framkvæmdastjóri bandarísku alríkislögreglunnar, Christopher Wray, verði afhöfðaður og eins sóttvarnalæknir landsins, Anthony Fauci.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert