Óhapp varð mörgum til bjargar

AFP

Réttarhöld eru að hefjast yfir þremur mönnum á Spáni sem eru sakaðir um að hafa aðstoðað vígamenn við árásir í Barcelona og strandbæ í nágrenni hennar árið 2017. Sextán létust í árásunum og 140 særðust. 

Vígasamtökin Ríki íslams lýstu ábyrgð á báðum árásunum sem gerðar voru 17. og 18. ágúst 2017 í Barcelona og Cambrils, sem er í 100 km fjarlægð frá borginni.

Saksóknarar hafa ekki ákært neinn mannanna þriggja fyrir að hafa átt beina aðild að blóðbaðinu en þeir eru allir ákærðir fyrir að hafa aðstoðað vígamennina. Einn árásarmannanna ók sendibifreið á gangandi vegfarendur á Römblunni með þeim afleiðingum að 14 létust, þar á meðal tvö börn – þriggja og sjö ára. 

Ökumaður sendibílsins flúði af vettvangi og drap eina manneskju á flóttanum. Hann var síðan skotinn til bana af lögreglu nokkrum dögum síðan. 

Fimm félagar ökumannsins gerðu síðan árás í Cambrils, óku á gangandi vegfarendur og stungu konu til bana. Allir árásarmennirnir voru skotnir til bana af lögreglu.

Tveir þeirra sem réttað verður yfir í dag eru ákærðir fyrir aðild að hryðjuverkahóp en sá þriðji fyrir að vinna með hópnum. Áætlað er að réttarhöldin standi til 16. desember. 

Farið er fram á að Mohamed Houli Chemlal verði dæmdur í 41 árs fangelsi en hann er ákærður fyrir aðild að hryðjuverkahópi, gerð og vörslu sprengiefnis auk aðildar að samsæri um að valda sem mestum skaða.  

AFP

Chemlal, sem er 23 ára gamall, sagði við rannsókn málsins að til hafi staðið að valda enn meiri skaða. Að gera árásir á Sagrada Familia-kirkjuna í Barcelona og Camp Nou-knattspyrnuleikvang borgarinnar. Eins Eiffel-turninn í París. En fyrir einskæra óheppni hafi sprengja sprungið í húsinu þar sem hryðjuverkahópurinn var að setja saman sprengjurnar í bænum Alcanar. Því hafi þeir neyðst til þess að fremja árásirnar nánast óundirbúið í Barcelona og Cambrils.

Chemlal var í húsinu þegar sprengingin varð en félagar hans, Abdelbaki Es Satty, 44 ára gamall ímam, sem er talinn hafa staðið á bak við öfgavæðingu ungu mannanna, lést.

Ákærur á hendur Driss Oukabir, 31 árs, eru þær sömu og gagnvart Chemlal en farið er fram á 36 ára fangelsi yfir honum. Bróðir Oukabir er einn árásarmannanna.

Jafnframt er farið fram á átta ára fangelsisdóm yfir Said Ben Iazza, 27 ára, en hann er ákærður fyrir aðild að hópnum og að hafa lánað árásarmönnunum sendibifreið og persónuskilríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert