Segja bóluefnið öruggt

Tilraunir hafa verið gerðar með bóluefni Sinovac Biotech í Brasilíu.
Tilraunir hafa verið gerðar með bóluefni Sinovac Biotech í Brasilíu. AFP

Kínverska lyfjafyrirtækið Sinovac Biotech segir að bóluefni við kórónuveirunni sem það er með í þróun sé öruggt en brasilískir eftirlitsaðilar fóru í gær fram á að tilraunum með bóluefnið yrði hætt í landinu vegna atviks sem hafi komið upp.

„Við erum sannfærð um öryggi bóluefnisins,“ segir í yfirlýsingu frá Sinovac í dag. Þar kemur fram að atvikið tengist bóluefninu ekki á nokkurn hátt. 

Klínískum rannsóknum á Covid-19-bóluefni Sinovac var hætt í Brasilíu í gær eftir að heilbrigðisyfirvöld greindu frá alvarlegu atviki. Ekki er óalgengt að klínískar rannsóknir séu stöðvaðar tímabundið. 

AFP

Eftirlitsstofnunin Anvisa segir að atvikið hafi átt sér stað 29. október en ekki voru gefnar frekari upplýsingar um það að því er segir í frétt BBC um málið. Bóluefni Sinovac er eitt nokkurra bóluefna sem eru á lokametrum klínískra rannsókna og er verið að prófa víðs vegar um heiminn. 

Í Kína er bóluefnið þegar komið í notkun og hafa þúsundir landsmanna fengið það á grundvelli neyðarviðbragða.

Fá lönd hafa farið jafn illa út úr kórónuveirufaraldrinum og Brasilía en yfir 5,6 milljónir smita hafa verið staðfest þar í landi og tæplega 163 þúsund hafa látist.

Lyfjafyrirtækið Pfizer greindi frá því í gær að bóluefni þess, sem þróað hefur verið gegn kórónuveirunni, sýndi allt að 90% virkni gegn henni. Markaðir tóku vel í tíðindin beggja vegna Atlantshafsins og hafði Dow Jones-vísitalan hækkað um 2,95% við lok viðskipta í gærkvöldi.

Þjóðarleiðtogar víða um heim lýstu yfir hóflegri bjartsýni um að bóluefnið gæti orðið til þess að binda enda á heimsfaraldurinn, en nú hafa rúmlega 50 milljónir manna smitast af veirunni og um 1,2 milljónir látist af völdum hennar.

Þá tilkynnti Evrópusambandið að það hygðist kaupa 300 milljónir skammta af bóluefninu, en þýska fyrirtækið BioNTech átti þátt í þróun þess ásamt Pfizer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert