Tripadvisor varar notendur sína við taílensku hóteli sem höfðaði mál gegn hótelgesti sem skildi eftir neikvæða umsögn um hótelið á vefsíðunni, en maðurinn var handtekinn og sat í gæsluvarðhaldi í tvo daga þar til hann baðst opinberrar afsökunar á ummælum sínum.
Bandaríkjamaðurinn Wesley Barnes skrifaði nokkrar umsagnir um hótelið á vef Tripadvisor, þar sem hann sakaði stjórnendur þess meðal annars um nútímaþrælahald. Hann var í kjölfarið handtekinn og kærður á grundvelli strangra ófrægingarlaga, en hefði hann verið fundinn sekur hefði hann getað hlotið fangelsisvist til allt að tveggja ára.
Talið var að málinu væri lokið þegar Barnes var látinn laus í kjölfar opinberrar afsökunar á ummælum sínum, og yfirgaf Taíland í kjölfarið, en nú hefur Tripadvisor stigið inn og sett viðvörun við hótelið á vefsíðu sinni. Slíkt hefur aldrei áður verið gert.
„Þetta hótel eða aðilar tengdir því sóttu notanda Tripadvisor til saka fyrir að skrifa og deila ummælum á vefnum. Notandinn sætti tíma í fangelsi vegna þessa,“ segir í viðvörun Tripadvisor, og jafnframt að þrátt fyrir að hótelið hafi verið að nýta réttindi sín undir taílenskum lögum sé það hlutverk Tripadvisor að upplýsa notendur svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um ferðatilhaganir sínar.