Cummings á leið úr Downingsstræti

Dominic Cummings, helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Dominic Cummings, helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Dominic Cummings, helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að láta af störfum í ráðuneytinu um áramót. Frá þessu greinir BBC. Talvert hefur gustað í kringum Cummings, en í sumar varð ferðalag hans til Norðaustur-Englands, eftir að útgöngubann hafði verið komið á, að stóru fréttamáli í Bretlandi og þurfti hann að skýra ákvörðun sína opinberlega. Þá var Cummings einn af helstu stuðningsmönnum Brexit árið 2016.

BBC hefur eftir yfirmanni í forsætisráðuneytinu að Cummings muni láta af störfum fyrir jól, en í janúar sagði Cummings í bloggfærslu að hann hygðist draga sig í hlé innan árs. Hefur BBC nú eftir honum að staða hans frá í janúar hafi ekki breyst.

Í gær var greint frá því að Lee Cain, fjarskiptaráðherra Bretlands, hefði stigið til hliðar, en hann og Cummings voru nánir samstarfsmenn.

Hefur BBC eftir heimildarmanni í ráðuneytinu að Cummings sé nú að stíga til hliðar, því annars hefði honum verið ýtt í burtu innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert