Dominic Cummings, helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, yfirgaf Downingstræti 10 nú síðdegis en áður hafði verið greint frá því að hann léti af störfum um áramótin.
Samkvæmt fréttum breskra miðla sammæltust Cummings og Johnson um að hann yfirgæfi skrifstofu ráðherrans þegar í stað en myndi vinna heima að ýmsum málefnum fram í desember, þegar hann lætur endanlega af störfum.
Johnson er sagður vilja hreinsa loftið og halda áfram en deilur um innri málefni ráðuneytisins eru sögð ástæða brotthvarfs Cummings.
Talsvert hefur gustað um Cummings, en í sumar varð ferðalag hans til Norðaustur-Englands, eftir að útgöngubann hafði verið komið á, að stóru fréttamáli í Bretlandi og þurfti hann að skýra ákvörðun sína opinberlega. Þá var Cummings einn af helstu stuðningsmönnum Brexit árið 2016.