Yfirvöld í Egyptalandi tilkynntu í dag uppgötvun rúmlega hundrað múmíukista sem eru allt að 2.500 ára gamlar, en það er stærsti fundur af því tagi á árinu.
Í kistunum, sem eru innsiglaðar og úr viði, eru múmíur helstu ráðamanna frá síðtímabili Egyptalands hins forna til hins svokallaða Ptólmæosartímabils. Kisturnar fundust á tólf metra dýpi í Saqqaragrafreitnum sem er sunnan höfuðborgarinnar Kaíró, en þar er tugi píramída og helgistaða að finna.
Fornleifafræðingar opnuðu eina kistu til sýningar og mátti þar sjá smurða múmíu, vafða í líkklæði sem skreytt var skærlitu myndletri. Kistunum verður dreift til helstu safna Egyptalands, þ.á m. hins glænýja Gizasafns sem verður opnað á næsta ári.
Þessi mikli fundur kemur til einungis mánuði eftir að fornleifafræðingar fundu aðrar 59 vel varðar múmíukistur á svæðinu.
„Saqqara á enn eftir að opinbera allar sínar gersemar. Svæðið er fjársjóður,“ sagði ferðamálaráðherra landsins við hátíðlega opnun, samkvæmt AFP-fréttaveitunni.