Tíu sjúklingar létust í eldsvoða

Slökkvilið á vettvangi.
Slökkvilið á vettvangi.

Tíu Covid-smitaðir sjúklingar létust þegar eldur kom upp í gjörgæsludeild spítala í bænum Piatra Neamt í norðausturhluta Rúmeníu undir kvöld.

Slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins á um klukkustund.

„Tíu voru úrskurðaðir látnir á staðnum og ástand sjö til viðbótar er viðkvæmt,“ sagði talsmaður spítalans og bætti við að einn þeirra sem hefðu slasast alvarlega væri læknir.

Þeir sem létust voru í öndunarvél á gjörgæslu.

Smitum fjölgar

Læknirinn reyndi að aðstoða fórnarlömbin en hlaut annars og þriðja stigs bruna á um 80% af líkamanum.

Líkt og víðar í Evrópu hefur smitum fjölgað í Rúmeníu á undanförnum vikum.

Í dag létust 129 af völdum veirunnar en alls hafa 8.813 látist þar í landi frá upphafi faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert