„Ég ætla að skjóta þig,“ „Ég ætla að drepa þig,“ „Ég ætla að kveikja í húsinu þínu,“ „Ég ætla að drepa börnin þín,“ „Það er sprengja í húsinu þínu.“
SMS- og annars konar skilaboð af ýmsum toga með framangreindu og öðru innihaldi eru nánast daglegt brauð Ernu Solberg og hafa verið frá árinu 2013. Hún hefur ótal sinnum skipt um símanúmer vegna þess gegndarlausa áreitis sem hún sætir frá reiðum norskum almenningi, en allt kemur fyrir ekki. Tuðgjarnir landar hennar stíga alltaf fram á ný með hæpnum fullyrðingum, óvönduðu málfari og leiðinlegum kveðskap, eins og draugarnir í Þýskalandi við Reinarbóndann Jón Hreggviðsson forðum.
Nú hefur Erna Solberg hins vegar stigið skrefinu lengra og skipt um nafn.
Umsókn Solberg var afgreidd hjá norsku þjóðskránni á föstudaginn fékk hún að vita og heitir nú eldgömlu norsku nafni, Lagertha Solberg. Lagertha, áður Erna, býr í Gjøvik, um 120 kílómetra norðan við norsku höfuðborgina Ósló og starfar þar við umönnun. Fyrir nafnbreytinguna var hún önnur tveggja kvenna í Noregi sem voru alnöfnur forsætisráðherra landsins, Ernu Solberg frá Bergen.
„Ég fæ endalausar skammir fyrir allt mögulegt sem fólk er ósátt við,“ segir nýbökuð Lagertha Solberg í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „vindorku, úlfa, atvinnuleysisbætur, almannatryggingabætur og málefni NAV [Vinnumálastofnunar Noregs]. Mér er meira að segja brigslað um að drepa erni,“ segir hún frá.
Skömmunum hefur rignt yfir heilbrigðisstarfsmanninn bókstaflega allan sólarhringinn síðan nafna hennar fyrrverandi settist í ráðherrastól. Sumt er saklaust, annað er verra. „Kona nokkur hringdi og sagðist ætla að skjóta mig, kveikja í húsinu mínu og ráðast á fjölskyldu mína. Það var mjög óþægilegt,“ segir Lagertha Solberg.
Ekki blés byrlegar síðast þegar Solberg var í atvinnuleit. „Umsóknunum mínum er bara hent af því að fólk heldur að þær séu grín og ef ég hringi í opinberar stofnanir eða bara skóla barnanna minna er ég bara beðin um að leggja á. Fólk tekur mig ekki alvarlega,“ segist henni frá.
Nýja nafnið hennar er býsna langt frá því að vera nýtt. Það er eldgamalt. Frá víkingaöld. „Ég fann það í bókum, þetta er gamalt víkinganafn og ég hugsaði með mér að þetta væri nafnið sem ég vildi taka mér,“ segir hún og bendir á að nafnið komi enn fremur fyrir í sjónvarpsþáttaröðinni Vikings.
Erna Solberg forsætisráðherra segir NRK að sér þyki mjög miður að Lagertha hafi sætt ofsóknum öll þessi ár í hennar nafni. „Mér finnst Erna fallegt nafn og Erna Solberg alveg sérstaklega. En það er býsna krefjandi að standa undir öllu því sem fólk reiðist mér fyrir,“ segir forsætisráðherrann og bætir því við að hennar númer sé leynilegt. „Ef þú finnur Ernu Solberg í símaskránni er það ekki ég,“ segir ráherrann.
„Kæra nafna. Mér þykir leitt að hafa orðið til þess að þú færð ausuna yfir þig. Þú átt að sleppa við að bera ábyrgð á mínum gjörðum. Að lokum vona ég að þú eigir gott líf með nafnið Lagertha,“ segir í orðsendingu Ernu Solberg forsætisráðherra til nöfnu hennar fyrrverandi, heilbrigðisstarfsmannsins í Gjøvik.
„Það er mjög sérstakt að skipta um nafn eftir öll þessi ár,“ segir Lagertha Solberg. „Ég mun líklega þurfa einhvern tíma til að muna eftir nýja nafninu og fá alla sem ég þekki til að muna það líka. Við sjáum hvað setur,“ segir Lagertha, áður Erna, Solberg sem á sér nú enga ósk heitari en að argir Norðmenn hætti að taka bræði sína út á henni sem ekkert hefur til saka unnið á pólitíska sviðinu.