Forseti Perús, Manuel Merino, sagði af sér í dag, sunnudag, eftir að hafa gegnt embætti í aðeins fimm daga. Afsögn forsetans var mætt með fagnaðarlátum í Lima, höfuðborg Perús, en mótmælt hefur verið á götum borgarinnar síðan hann tók við embætti.
Merino sagði af sér eftir þrýsting frá perúska þinginu, sem og mótmæli á götum úti.
Mótmæli hafa geisað í Perú síðan forveri Merinos, Martin Vizcarra, var fjarlægður úr embætti síðasta mánudag vegna meintrar spillingar. Merino gegndi stöðu forseta perúska þingsins og var skipaður í forsetastól eftir að Vizcarra var fjarlægður úr embætti.
Það kemur nú í hlut þingsins að skipa þriðja forseta Perús á rúmri viku.
Viðbrögð ríkisstjórnar Merinos við mótmælunum vöktu hörð viðbrögð, en hann var sakaður um að beita ofbeldi til að ráða niðurlögum mótmælanna. Á laugardaginn voru tveir mótmælendur drepnir af lögreglumönnum í kjölfar friðsamlegra mótmæla í Lima.
Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Perú grátt, en dánartíðni í ríkinu vegna faraldursins er með því hæsta í heimi. Þá hefur verg landsframleiðsla hrapað um 30% á öðrum fjórðungi 2020.