Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin (NSA) nýtti sér háleynilegt danskt-amerískt njósnasamstarf til að njósna um danskar stofnanir og fyrirtæki í Danmörku, auk fleiri aðila í Svíþjóð, Þýskalandi, Frakklandi, Noregi og Hollandi.
Þetta sýna sláandi niðurstöður trúnaðarskýrslna sem uppljóstrari innan leyniþjónustu danska hersins (Forsvarets Efterretningstjeneste, FE) gerði árið 2015 og danska ríkisútvarpið hefur komist yfir. Í skýrslunum eru leiðtogar dönsku leyniþjónustunnar varaðir við hugsanlegum lögbrotum sem tengjast njósnasamstarfi Danmerkur og Bandaríkjanna og fólust í að fylgst var með danskri netnotkun. Auk þess að vara við njósnum Bandaríkjanna gegn Danmörku, varaði uppljóstrarinn sömuleiðis við því að njósnað væri um aðila í Svíþjóð.
Danska ríkisútvarpið hefur rætt við nokkra ótengda heimildarmenn, sem hafa innsýn í skýrslurnar.
„NSA hefur notað kapalsamstarfið [þ.e. netnjósnasamstarfið] gegn helstu bandamönnum Danmerkur og áður einnig gegn dönskum hagsmunum,“ segir einn heimildarmannanna.
„NSA notar samstarfið við dönsku leyniþjónustuna til að njósna gegn dönskum hagsmunum. Þetta uppgötvar einn starfsmaður [fyrrnefndur uppljóstrari] og fer með til yfirmanna sinna,“ segir annar heimildarmaður.
Samkvæmt heimildunum voru dönsku fjármála- og utanríkisráðuneytin meðal fórnarlamba, en einnig danski hergagnaframleiðandinn Tema í Árósum.
Í fréttaskýringu danska ríkisútvarpsins segir að fréttamönnum hafi ekki tekist að fá það staðfest hvort danska leyniþjónustan hafi brugðist við skýrslu uppljóstrarans.
Það gangi hins vegar augljóslega í berhögg við tilgang dönsku leyniþjónustunnar hafi hún gefið bandarísku leyniþjónustunni færi á að njósna gegn grundvallarstofnunum Danmerkur og danskra varnarmála, segja tveir leiðandi sérfræðingar á sviðinu.
„Þetta er átakanlegt, vegna þess að þær stofnanir sem eiga að vernda Danmörku [...] eru með í því að grafa undan öryggi Danmerkur og mikilvægum hagsmunum,“ segir Jens Elo Rytter, prófessor í stjórnskipunarrétti við Kaupmannahafnarháskóla.
„Samkvæmt dönskum lögum má erlend leyniþjónusta vitanlega ekki njósna gegn Danmörku á þennan hátt, að menn fái innsýn í hernaðarleyndarmál eða viðkvæm pólitísk málefni,“ segir Jørn Vestergaard, prófessor emiritus í hegningarlögum við Kaupmannahafnarháskóla.
Í Danmörku er starfandi stofnun sem ber heitið Tilsynet med Forsvarets Efterretningstjeneste, Leyniþjónustueftirlitið, og hefur það hlutverk að fylgjast með starfsemi leyniþjónustu danska hersins (FE) og leyniþjónustu dönsku lögreglunnar (PET).
Í september færði Leyniþjónustueftirlitið Trine Bramsen varnarmálaráðherra svarta skýrslu í fjórum bindum um starfsemi leyniþjónustustofnunar hersins. Það var í kjölfar þeirrar skýrslu sem danska ríkisútvarpið greindi fyrst frá njósnasamstarfi Bandaríkjanna og Danmerkur. Þá snerist málið ekki um njósnir Bandaríkjamanna gegn dönskum stofnunum, heldur njósnir dönsku stofnunarinnar gegn óbreyttum dönskum borgurum.
Leyniþjónusta danska hersins hefur hins vegar það eina hlutverk að vernda Danmörku gegn utanaðkomandi ógn og að verja danska hagmuni í útlöndum. Því má stofnunin aðeins komast yfir upplýsingar um Dani sé það af tilviljun.
Í kjölfar þeirra uppljóstrana var Lars Findsen, forstjóra leyniþjónustunnar, vikið úr starfi, sem og tveimur öðrum starfsmönnum.
Danska ríkisútvarpið greindi frá því að njósnakerfið geri leyniþjónustunni kleift að „soga til sín“ gríðarlegt magn sms-skilaboða, símtala, mynda, skilaboða af samfélagsmiðlum og annarrar netnotkunar frá dönskum ljósleiðurum og geyma sem hrá gögn.
„Áður hafði Leyniþjónustueftirlitið fundið vísbendingar um að leyniþjónustan bryti gegn lögum með því að safna upplýsingum um Dani, en málið lítur nú út fyrir að vera mun alvarlegra,“ sagði fyrrnefndur Jens Elo Rytter, prófessor í stjórnskipunarrétti við Kaupmannahafnarháskóla af þessu tilefni. „Ef FE [leyniþjónusta danska hersins] hefur markvisst safnað gögnum um einstaklinga sem eiga heima í Danmörku þá brýtur það gegn lögum sem gilda um stofnunina.“
Dönsku blöðin Weekendavisen og Berlingske hafa greint frá því að samstarf leyniþjónustu danska hersins og Bandaríkjanna á þessu sviði megi rekja til forsætisráðherratíðar jafnaðarmannsins Poul Nyrup Rasmussen á tíunda áratugnum.
En ef marka má danska ríkisútvarpið hefur samstarfið tekið stakkaskiptum á liðnum árum og má í raun tala um að glænýtt kerfi hafi litið dagsins ljós fyrir nokkrum árum.
„Hér áður fyrr var hægt að hlusta örlítið hér og þar. En með nýja kerfinu opnuðust gáttirnar. Eina áskorunin var að finna gagnaver sem gæti geymt þetta allt saman,“ segir heimildarmaður danska ríkisútvarpsins.