Belgísk stjórnvöld ætla að sjá til þess að bóluefni við kórónuveirunni verði í boði fyrir um 70 prósent þjóðarinnar, eða um átta milljónir manna. Það verður jafnframt ókeypis.
Fólk verður ekki skyldugt til að fara í bólusetningu, að sögn heilbrigðisráðherrans Franks Vandenbroucke.
„Markmiðið er að bólusetja að minnsta kosti 70 prósent þjóðarinnar. Það verður ákveðið af vísindamönnum og í samfélagslegri umræðu hvaða hópar verða í forgangi,“ sagði hann og bætti við: „Bólusetning verður ókeypis fyrir alla borgara.“
Um 11,5 milljónir manna búa í Belgíu. Þar hafa greinst tæplega 540 þúsund tilfelli veirunnar og yfir 14 þúsund manns hafa látist. Hlutfall látinna í landinu er eitt það hæsta í Evrópu.