Bandaríkin ætla að fækka hermönnum sínum í Afganistan og Írak um 2.500 samanlagt.
Að sögn starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Chris Miller, verður hermönnum í Afganistan fækkað um í kringum tvö þúsund hinn 15. janúar. Alls munu 500 til viðbótar snúa heim frá Írak. Eftir munu standa 2.500 hermenn í hvoru landi fyrir sig.
Með ákvörðuninni er framfylgt stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að „ljúka stríðinu í Afganistan og Írak á skynsamlegan hátt og flytja okkar hugrökku hermenn heim,“ sagði Miller.
Hann bætti við að Bandaríkin hafi náð markmiði sínu sem var sett árið 2001 eftir árásir al-Kaída á Bandaríkin, um að bera sigurorð af herskáum íslamistum og aðstoða „heimamenn og samherja við að taka völd í baráttunni“.