Ríkisstjórn Danmerkur hefur nú tryggt meirihluta á þinginu fyrir nýjum lögum sem heimila henni að fyrirskipa að öllum minkum í landinu verði lógað.
Tvær vikur eru síðan ríkisstjórnin fyrirskipaði að það skyldi gert eftir að tólf manns greindust smitaðir af stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar sem rakið er til minka.
Kom síðar í ljós að ríkisstjórnin hafði ekki heimild fyrir tilskipuninni, sem þá var breytt í tilmæli. Hafa Mogens Jensen landbúnaðarráðherra og Mette Frederiksen forsætisráðherra sætt harðri gagnrýni enda þykir einsýnt að landbúnaðarráðherrann og sennilega forsætisráðherra sömuleiðis hafi vitað að lagaheimild skorti.
En nú er lagaheimildin sumsé brátt í höfn. Jafnaðarmenn sitja einir í minnihlutastjórn Danmerkur en njóta til þess stuðnings annarra flokka á vinstri væng stjórnmálanna, rauðu blokkarinnar svokölluðu. Þarf stjórnin því að semja við stuðningsflokkana eða aðra þingflokka um afgreiðslu sérhvers máls.
Einingarlistinn, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og miðjuflokkurinn De Radikale hafa allir gengið að samkomulagi við jafnaðarmenn, en stjórnarandstæðingar í hægriflokknum Venstre, Íhaldsflokknum og Danska þjóðarflokknum slitu sig frá viðræðunum á elleftu stundu.
Samkvæmt lögunum verður minkahald ólöglegt í Danmörku út árið 2021.
Enn hefur ekki verið samið um hvernig staðið verður af því að bæta minkabændum landsins tjónið. Þó er í lögunum að þeir bændur sem slátra sínum minkum í seinasta lagi 19. nóvember, þ.e. á fimmtudag, fá 30 danskar krónur (650 ISK) aukalega fyrir hvern mink. Þá fá bændur á Norður-Jótlandi enn fremur 10 danskar krónur (220 ISK) bónus fyrir minka sem þeir slátruðu fyrir 12. nóvember, þ.e. áður en lögin tóku gildi.
Gert er ráð fyrir að bónusgreiðslurnar einar og sér muni kosta ríkissjóð Danmerkur rúma níu milljarða íslenskra króna. Þá eru ótaldar bæturnar sem enn á eftir að semja um, að ekki sé minnst á skatttekjurnar sem ríkið verður af er minkaræktin leggst af.
Danir hafa verið stærsti framleiðandi minkaskinns í heiminum og staðið undir 40 prósentum af heimsframleiðslunni. Tvöfalt fleiri minkar en menn bjuggu í Danmörku, áður en nokkrir þeirra nældu sér í Covid.