Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur lagt fram áætlun þar sem hann stefnir að því að koma af stað grænni iðnbyltingu. Leggur Johnson meðal annars til bann við sölu á nýjum bensín- og dísilbílum árið 2030 og aðgerðir varðandi föngun kolefnis.
Þessar tíu aðgerðir eru stikur í átt að vegferð Bretlands að kolefnishlutleysi 2050, að því er fram kemur í tilkynningu frá breska sendiráðinu.
Ríkisstjórn Bretlands muni verja tólf milljörðum punda, eða ríflega 2.000 milljörðum íslenskra króna, í áætlunina sem gert er ráð fyrir að skapi allt að 250 þúsund störf.
Öll ríki heims verði að grípa til aðgerða
„Þrátt fyrir að þetta ár hafi tekið óvænta stefnu, lítur Bretland til framtíðar og ætlar að grípa tækifæri til að tryggja græna endurreisn,“ er haft eftir forsætisráðherranum í tilkynningunni.
„Endurreisn plánetunnar okkar og efnahagskerfa verða að fylgjast að. Nú, þegar við undirbúum COP26 loftslagsráðstefnuna á næsta ári, set ég fram metnaðarfulla áætlun til að tryggja græna iðnbyltingu, sem mun gjörbreyta lifnaðarháttum okkar hér í Bretlandi.
Við stöndum frammi fyrir sameiginlegri áskorun – öll ríki heims verða að grípa til aðgerða til að tryggja framtíð barna okkar, barnabarna og framtíðarkynslóða.“
Hjólreiðar og ganga verði aðlaðandi ferðamáti
Áætluninni er ýtt úr vör í aðdraganda fundar leiðtoga ríkja, þar sem gert er ráð fyrir að þau kynni metnaðarfyllri áætlanir í loftslagsmálum, 12. desember, og svo formennsku Breta á loftslagsráðstefnunni COP26 á næsta ári.
Aðgerðirnar tíu eru sagðar byggja á styrkleikum Bretlands og eru tíundaðar á eftirfarandi hátt:
- Vindorka á hafi: framleiða nægilega mikla vindorku til að sjá öllum breskum heimilum fyrir orku, með því að fjórfalda framleiðslu upp í 40GW fyrir 2030 og skapa þar með 60 þúsund störf.
- Vetni: vinna náið með fyrirtækjum við að skapa 5GW af hreinni orku í formi vetnis fyrir árið 2030. Vetni væri ætlað iðnaði, samgöngum, orku og heimilum. Stefnt er að því að tryggja að fyrsti bærinn sem verði séð fyrir orku að öllu leyti með vetni verði að veruleika fyrir 2030.
- Kjarnorka: tryggja áframhaldandi notkun á kjarnorku sem grænum orkugjafa bæði með framleiðslu á kjarnorku á stórum skala og einnig með minni kjarnakljúfa. Alls er gert ráð fyrir að skapa um 10 þúsund störf.
- Rafbílar: leggja bann á sölu á nýjum bensín- og díselbílum og flutningabílum árið 2030 – tíu árum fyrr en áætlað var – tvinnbílar fylgja í kjölfarið árið 2035. Stefnt er að því að gjörbreyta innviðum Bretlands til að koma til móts við rafbíla. Bretland gerir ráð fyrir að verða fyrsta G7 ríkið til að gera vegasamgöngur að öllu leyti grænar.
- Almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga: hjólreiðar og ganga verði aðlaðandi samgöngumáti. Áframhaldandi fjárfesting í hreinum almenningssamgöngum framtíðarinnar.
- Grænni flug og siglingar: styðja iðnað sem erfiðara er að grænka til að taka skrefið í átt að sjálfbærari framtíð með rannsóknarverkefnum á flugi og siglingum sem menga ekki.
- Heimili og opinberar byggingar: gera heimili fólks, skóla og spítala, grænni, hlýrri og orkunýtnari og skapa samtímis 50 þúsund störf fyrir 2030, með það að markmiði að setja upp 600 þúsund varmadælur á hverju ári til 2028.
- Kolefnisföngun: Bretland stefnir að því að verða leiðandi í tækniþróun á föngun og geymslu mengandi losunar með það að markmiði að fjarlægja 10MT af kolefni úr andrúmsloftinu fyrir 2030.
- Náttúra: vernda og endurheimta náttúrulegt umhverfi með því að planta 30 þúsund hektörum trjáa á ári hverju og skapa þar með þúsundir starfa.
- Nýsköpun og fjármagn: þróa tæknilausnir í fremstu röð til að ná þessum markmiðum og gera Lundúnir að leiðandi í grænni fjármögnun.
Frekari upplýsingar má nálgast hér.