Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, var í skýjunum í dag eftir að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hrósaði honum fyrir „karlmennsku“ hans í ræðu. Margir brandarar fylgdu í kjölfarið á netinu um „brómans“-samband þeirra.
Pútín lofaði Bolsonaro í bak og fyrir í ræðu á rafrænni ráðstefnu BRICS-hópsins sem samanstendur af Brasilíu, Rússlandi, Indlandi, Kína og Suður-Afríku. Hann sagði forsetann hafa sýnt hugrekki með viðbrögðum sínum við kórónuveirufaraldrinum.
„Þú smitaðist meira að segja sjálfur af þessum sjúkdómi og stóðst þolraunina og sýndir mikið hugrekki,“ sagði Pútín um veikindi Bolsorano í júlí síðastliðnum, samkvæmt skjali sem brasilíski forsetinn birti á Facebook.
„Ég veit að þetta hefur ekki verið auðvelt en þú tókst á við það eins og sannur karlmaður og sýndir bestu kostina í sambandi við karlmennsku eins og kraft og viljastyrk,“ bætti hann við.
Auk þess að deila myndbandi og skjalinu á netinu minntist Bolsonaro á ræðuna við hóp stuðningsmanna fyrir utan forsetahöllina. „Sá einhver ræðuna hjá forseta Rússlands í gær? Sá hana einhver?“ spurði hann.
Gert var grín að þeim félögum á netinu. Á einni mynd sést Bolsonaro, ber að ofan, fyrir aftan Pútín, einnig beran að ofan, á hestbaki.
Aðrir grínuðust með að brasilíski popúlistinn væri að daðra við nýjan mann eftir að hafa „hætt með“ pólitísku átrúnaðargoði sínu Donald Trump Bandaríkjaforseta, eftir að sá síðarnefndi tapaði í forsetakosningunum fyrir tveimur vikum.
Þrátt fyrir fögur orð Pútíns í garð Brasilíuforseta hafa heilbrigðissérfræðingar gagnrýnt harðlega hvernig Bolsonaro hefur brugðist við Covid-19. Hann hefur reynt að gera sem minnst úr faraldrinum jafnvel þótt Covid-19 hafi orðið 166 þúsund manns að bana í landinu, sem er það næstmesta í heiminum á eftir Bandaríkjunum.