Stökkbreytt gerð kórónuveirunnar, sem greindist í dönskum minkum og olli áhyggjum af virkni væntanlegs bóluefnis, hefur líklega verið útrýmt.
Þetta segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Danmerkur í dag.
„Það hafa engin ný tilfelli greinst af 5. klasa stökkbreytingunni frá 15. september, sem leyfir dönsku sóttvarnastofnuninni að álykta að þessari gerð hafi mjög líklega verið útrýmt,“ segir í tilkynningunni.
Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra Danmerkur, sagði af sér í gær eftir að hafa fyrirskipað að allir minkar í landinu yrðu drepnir án þess að tryggja að fyrir því hafi verið heimild í lögum.
Rúmar tvær vikur eru síðan ríkisstjórnin fyrirskipaði að öllum minkum landsins skyldi lógað eftir að tólf manns greindust smitaðir af stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar sem rakið er til minka.
Kom síðar í ljós að ríkisstjórnin hafði ekki heimild fyrir tilskipuninni, sem þá var breytt í tilmæli. Hafa Mogens Jensen landbúnaðarráðherra og Mette Frederiksen forsætisráðherra sætt harðri gagnrýni enda þykir einsýnt að landbúnaðarráðherrann og sennilega forsætisráðherra sömuleiðis hafi vitað að lagaheimild skorti.