Stjórnendur Gardermoen-flugvallarins, norðaustur af Ósló í Noregi, bregða nú á það ráð í kórónuveirufaraldrinum að loka stórum hluta flugstöðvarinnar sem er enda svo gott sem galtóm allan daginn, en farþegar sem fóru um völlinn í síðustu viku voru 86 prósentum færri en í sömu viku ársins 2019.
Með lokuninni sparast háar upphæðir sem ellegar hefðu farið í rafmagn, ræstingar og almennt viðhald, en flugstöðvarbyggingin var stækkuð verulega með framkvæmdum síðustu ár.
„Á svona tímum er dapurlegt að vera forstöðumaður Flugvallarins í Ósló [Oslo Lufthavn er formlegt heiti Gardermoen-vallarins]. Við lifum jú á viðskiptavinum, farþegum og flugfélögum og fjarvera þeirra er ákaflega sorgleg,“ segir Stine Ramstad Westby, forstöðumaður flugvallarins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og lýsir auðum sölum flugstöðvarinnar ásamt verslunum og veitingastöðum sem eiga í vök að verjast rekstrarlega.
Það er norðurálman, Pir Nord eins og hún kallast, sem á næstu dögum verður lokað þar til flugsamgöngur heimsins taka að sjá til sólar á ný, hvenær sem það verður, en umferð um Pir Nord er hvort tveggja millilanda- og innanlandsflug. Auk þess verður öllum eystri hluta komusalar flugvallarins lokað.
„Núna rekum við flugvöllinn á einni flugbraut í einu, skiptumst á að nota brautirnar tvær sem við höfum. Ofan á það lokum við nú hálfum komusalnum svo það verður bara nýrri hlutinn sem verður opinn framvegis. Farþegarnir munu bara sjá bráðabirgðaveggi í miðjum salnum þar sem lokað er,“ útskýrir forstöðumaðurinn.
Norðurálman var áður lokuð tímabilið mars til júní á árinu en nú boðar Westby lokun þessara tveggja svæða út árið 2021. „Í því ástandi sem nú ríkir eru tekjur okkar takmarkaðar, við snúum hverri krónu og spörum þar sem hægt er,“ segir Westby og skyldi engan undra.
Nú er hún Snorrabúð stekkur, segir í kvæði Jónasar Hallgrímssonar um yfirgefinn Þingvöll og ekki örgrannt um að heimfæra megi á Gardermoen á kórónutíð. Nærri því 20 milljónir farþega vantar upp á þá umferð sem var um flugstöðina árið 2019 þegar 29 milljónir manns fóru um hana. Á þessu ári mun sú tala ef að líkum lætur ekki ná tíu milljónum og nær farþegafjöldi ársins ekki upp í þá umferð sem var um flugvöllinn lokaár hans á Fornebu í Bærum, rétt við hlið Óslóar, en þar var aðalflugvöllur borgarinnar frá 1939 til 1998.
Westby fer ekki í neinar grafgötur þegar hún spáir því að núverandi ástand muni vara að mestu út næsta ár, hvað sem bóluefnum líður. „Miðað við þær upplýsingar sem við fáum frá Heilbrigðisstofnun Noregs mun töluverður tími líða þar til bóluefni er öllum aðgengilegt og allri Evrópu,“ segir hún og spáir því að flugumferð byrji fyrst að ná sér á strik árin 2022 og 2023 og verði komin í eðlilegt horf á ný árið 2025.
„Horfurnar í vetur eru dökkar,“ segir Westby og kveðst óttast fjölmennar hópuppsagnir á flugvellinum. Fjöldi starfsmanna sé nú heima á svokallaðri permitteringu, sem er vægara úrræði en uppsögn og gengur út á að starfsfólk vinnur ekki og þiggur aðeins hluta af launum sínum, sem koma frá norsku vinnumálastofnuninni NAV. Úrræðinu því er þó nokkuð þröngt sniðinn stakkur í tíma og í vor verður svo komið að ekki verður hægt að beita því lengur í þágu þeirra sem hófu það á þessu ári.
„Þá búum við okkur undir uppsagnir, ef til vill fjöldauppsagnir, hjá fyrirtækjunum sem halda hér uppi starfsemi. [...] Við vonum því að fólk verði ferðaþyrst þegar hægt verður að ferðast á ný og hlutirnir muni þá ganga hratt fyrir sig,“ segir Stine Ramstad Westby, forstöðumaður Gardermoen-flugvallarins við Ósló, að lokum.