Yfirvöld í Hollandi eru reiðubúin að dreifa bóluefni við kórónuveirunni til 3,5 milljóna manna á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þetta tilkynnti heilbrigðisráðherra landsins í dag.
Fyrst um sinn verður bólusetningarátakinu beint að fólki eldra en 60 ára og þeim sem taka á sig aukna áhættu við störf í heilbrigðisgeiranum.
Dreifingin mun hefjast um leið og evrópska lyfjaeftirlitið gefur græna ljósið, segir ráðherrann, Hugo de Jonge.
„Allt er til reiðu um leið og fyrstu bóluefnin eru afhent. Mjög líklega á fyrstu mánuðum ársins 2021.“
Stjórnvöld landsins hafa þegar keypt 25 milljónir nála auk kæliskápa til að halda bóluefni við -70 gráður.