Ærandi þögn sænskra stjórnvalda varð til þess að ekki var upplýst opinberlega um samtal tveggja manna um borð í næturlest milli Póllands og Þýskalands í ágúst 1942. Þögnin ríkti áfram um hryllinginn sem átti sér stað í útrýmingarbúðum nasista. Helförin var ekki viðurkennd sem staðreynd. Eitthvað sem enn í dag einhverjir eiga erfitt með að viðurkenna.
Sænski stjórnarerindrekinn Göran Fredrik von Otter var á leið frá Varsjá til Berlínar 20. ágúst 1942 er hann tók eftir farþega um borð sem greinilega leið illa. Farþeginn var Kurt Gerstein, liðsforingi í SS-hersveitum þýskra nasista, sem var á leið heim frá Belzec-útrýmingarbúðunum. Þar hafði hann horft á skipulögð fjöldamorð á gyðingum.
Birgitta von Otter, dóttir Görans, segir að mennirnir tveir hafi tekið tal saman og þegar Gerstein áttaði sig á að von Otter var frá hlutlausu ríki, Svíþjóð, sagði hann sögu sína.
Alla nóttina sátu þeir á gólfinu í yfirfullum lestarklefanum og töluðu saman. Gerstein lýsti því í smáatriðum hvernig hann hafi horft á hundruð gyðinga verið skipað að raða sér upp, afklæðast áður en þeir voru þvingaðir inn í loftþétt herbergi, gasklefa, þar sem útblástur frá díselvél var notaður til að myrða fórnarlömbin.
Von Otter vissi í fyrstu ekki hvort mark væri takandi á þessum manni sem sagði þessar hryllilegu sögur og grunaði að Gerstein væri njósnari sem vildi koma lygafregn í umferð. En þegar Gerstein teiknaði upp kort af búðunum og sýndi honum pöntunareyðublað fyrir gasið sem var notað í Belzec, Zyklon B, sannfærðist hann um að Gerstein segði satt.
„Faðir minn áttaði sig á að þarna væri manneskja, full örvæntingar, sem vildi að heimurinn gerði sér grein fyrir því hvað væri að gerast,“ segir Birgitta von Otter í viðtali við AFP-fréttastofuna nýverið.
Þegar Göran von Otter kom í sendiráð Svía í Berlín var honum tjáð af yfirmönnum sínum að hann mætti alls ekki skrifa frásögn Gerstein niður. Heldur ætti hann að flytja munnlega skýrslu um málið hjá utanríkisþjónustunni þegar hann sneri aftur til Svíþjóðar. Hann gerði það hálfu ári síðar en viðbrögðin voru önnur en hann hafði átt von á.
Eftir að hafa greint frá því sem Gerstein sagði honum um borð í lesinni taldi Göran von Otter að hlutverki hans væri lokið og málið væri í öruggri höfn sænsku ríkisstjórnarinnar. „Á vissan hátt finnst mér eins og hann hafi verið röng manneskja á röngum stað,“ segir Carl Svensson, kvikmyndagerðarmaður og höfundur heimildarmyndarinnar En svensk tiger, um von Otter sem var frumsýnd árið 2018.
Hér er hægt að horfa á myndina á vef SVT.
Svensson telur að málið og málalyktir þess séu dæmigert fyrir Svía en fátt er til staðfest af hálfu sænskra stjórnvalda þar um. Árið 1961 gaf utanríkisráðuneytið út yfirlýsingu um að það hefði fengið upplýsingar á sínum tíma en að svipaður vitnisburður hefði verið á kreiki á þessum tíma. Þar á meðal það sem Wladyslaw Sikorski, leiðtogi útlegðarstjórnar Póllands, hafði að segja.
Staffan Söderblom, sem var meðal þeirra sem von Otter gaf munnlega skýrslu, sagði í viðtali við Aftonbladet árið 1979 að Þýskaland árið 1942 hafi enn verið almáttugt og það hefði haft verulega hættu í för með sér fyrir Svíþjóð en landið hefði haft afskipti af málum sem þessu. Að ótti hafi verið ástæðan fyrir því að upplýsingunum var leynt.
Sænsk yfirvöld voru aftur á móti ekki ein um þegja. Því bækur um Gerstein, sem lést í frönsku fangelsi er hann beið réttarhalda árið 1945, greina frá því að hann hafi farið með frásögn sína bæði til fulltrúa Sviss og Hollands.
Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939 hvatti forsætisráðherra Svíþjóðar, Per Albin Hansson, landa sína til þess að standa saman í baráttunni við að halda landinu utan stríðsátaka. Svíþjóð var ekki hernumið, ólíkt nágrannaríkjunum Noregi og Danmörku, en það kostaði ýmsar fórnir.
Fyrir seinni heimsstyrjöldina var Þýskaland helsta viðskiptaland Svíþjóðar og Svíar fluttu út járngrýti og kúlur í kúlulegur löngu eftir að Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Samviskubit Svía kom berlega í ljós árið 1945 er þeir áttuðu sig á því hvernig þeir stóðu hljóðir hjá, segir Ingrid Lomfors, forstöðukona sögusafnsins í Stokkhólmi, í samtali við AFP.
Til þess að bæta stöðu sína meðal bandamanna eftir stríð lögðu Svíar ofurkapp á að benda á það góða sem landið hafði gert. Til að mynda að taka á móti gyðingum frá Danmörku og verk sænska stjórnarerindrekans Raouls Wallenbergs í Ungverjalandi en hann gerði allt sem í hans valdi stóð til þess að koma gyðingum undan nasistum í Ungverjalandi segir Lomfors.
Vegna þessa tókst Svíum, að sögn Lomfors, að tryggja það að ríkið var talið í fararbroddi hvað varðar mannréttindi. „Það leið mjög langur tími áður en við fórum að velta við hverjum steini og þá blasti við mun flóknari mynd. Alveg eins og var í öðrum ríkjum,“ segir hún.
Fyrir Svensson er saga Görans von Otters hetjusaga sem var sópað undir teppið. Þetta sé eitthvað sem læra megi að í nútímanum segir hann.
Göran von Otter lést árið 1988 og alla tíð kvaldist hann af eftirsjá – hvers vegna gerði ég ekki meira. Þetta varð til þess að hann glímdi við þunglyndi það sem eftir lifði ævinnar og að sögn dóttur hans, sem er á níræðisaldri, talaði hann ekki um þessa vanlíðan sína enda af þeirri kynslóð sem taldi það ekki rétt. Heldur bæri að harka af sér.
Nasistar útrýmdu um 600 þúsund gyðingum í Belzec en líkt og fram kemur á Vísindavef Háskóla Íslands ráku nasistar sex þekktar fangabúðir.
„Í Majdanek myrtu nasistar til dæmis um 200.000 manns, í Chelmno rúmlega 200.000, í Belzec um 600.000, í Sobibor um 250.000, í Treblinka tæplega 1.000.000 og rúmlega 1.250.000 í Auschwitz. Stundum er sagt að þessar fimm síðastnefndu búðir hafi verið einu réttnefndu útrýmingarbúðir nasista, en þá ber að hafa í huga að útrýming fór einnig fram í þeim fjölmörgu þrælkunar- og fangabúðum sem þeir ráku, þar sem fangarnir féllu úr hungri, vosbúð, sjúkdómum eða sakir illrar meðferðar,“ segir á Vísindavef HÍ.