Átta létust í eldflaugaárás

Ummerki eldflaugar í Khair Khana í norðvesturhluta Kabúl.
Ummerki eldflaugar í Khair Khana í norðvesturhluta Kabúl. AFP

Átta létust hið minnsta í eldflaugaárásum í Kabúl, höfuðborg Afganistans í morgun. Flaugarnar hæfðu nokkra staði í mið- og norðurhluta borgarinnar, þar á meðal hið víggirta Græna svæði, þar sem sendiráð og alþjóðastofnanir eru til húsa, rétt fyrir klukkan níu í morgun að staðartíma (4:30 að íslenskum).

Íranska sendiráðið í borginni segir á Twitter að brot úr eldflaug hafi hæft aðalbyggingu þess eftir að eldflaug lenti á lóðinni. Engan sakaði þó.

Tariq Arian, innanríkisráðherra Afganistan, kennir talíbönum um árásina en hann segir hryðjuverkamenn hafa skotið alls 23 eldflaugaskotum. „Byggt á okkar upplýsingum eru píslarvottarnir átta og 31 særður,“ sagði Arian.

Afgönsk stjórnvöld og talíbanar hófu friðarviðræður í Doha í Katar í september, en árangurinn hefur verið lítill hingað til. Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar er tíðinda þó að vænta á næstu dögum og bandaríska utanríkisráðuneytið tilkynnti í gær að Mike Pompeo utanríkisráðherra væri á leið til  Doha að hitta samningamenn.

Trump forseti hefur ítrekað lofað að enda „eilíf stríð“ landsins, þar á meðal í Afganistan. Stríðið þar hefur staðið frá árinu 2001 og er lengsta stríð Bandaríkjanna. Fyrr í vikunni tilkynntu bandarísk yfirvöld um áform um að draga heim 2.000 hermenn og flýta þannig áformum um að draga sig alfarið út úr stríðinu í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert