Möguleikum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að fá úrslitum forsetakosninganna fyrr í mánuðinum hnekkt fækkar enn eftir að þingmenn á ríkisþinginu í Michigan gáfu til kynna að þeir myndu ekki reyna að grafa undan sigri demókratans Joe Bidens í ríkinu.
Trump bauð þingmönnum repúblikana á ríkisþinginu í Michigan í Hvíta húsið í gær, en fregnir herma að hann hafi þar reynt að sannfæra þingmennina um að staðfesta ekki úrslit kosninganna. Þing ríkisins staðfestir útnefningun kjörnannanna þess í kjölfar kosninganna, nokkuð sem jafnan er litið á sem formsatriði.
Tveir þingmenn repúblikana hafa heitið því að fylgja „hefðbundnu ferli“ þegar kemur að staðfestingu úrslitanna.
Teymi forsetans hefur nú tapað fjölmörgum dómsmálum þar sem reynt hefur verið að fá talningu atkvæða breytt til að snúa úrslitum kosninganna.
Í Arizona hafnaði dómari nýlega kæru um að farið skyldi aftur yfir atkvæði úr Maricopa-sýslu, þar sem höfuðborgin Phoenix er. Í Pennsylvaníu tapaði forsetinn málsókn um að 2.000 póstatkvæði skyldu ógild.
Á föstudag staðfestu yfirvöld í Georgíu sigur Bidens í ríkinu, en þar höfðu atkvæði verið endurtalin vegna þess hve mjótt var á munum. Biden hafði betur með 12.670 atkvæðum og varð þar með fyrsti demókratinn til að hafa betur í ríkinu frá því Bill Clinton bauð fram árið 1992.
Samkvæmt heimildum bandarískra miðla stefnir forsetinn nú á að reyna að sannfæra repúblikana í ríkjum þar sem flokkurinn er í meirihluta á ríkisþinginu, til að ógilda úrslit kosninganna og lýsa Trump sigurvegara.
Trump hefur lýst áhuga á að bjóða þingmönnum frá Pennsylvaníu, ríki þar sem Biden vann nauman sigur, í Hvíta húsið samkvæmt heimildum CBS-sjónvarpsstöðvarinnar.
Engir slíkir fundir eru þó enn á opinberri dagskrá forsetans um helgina. Fjöldi sýslan í Ryðbeltinu svokallaða, auk Michigan, munu staðfesta úrslit kosninganna á mánudag og verður að teljast ólíklegt að teymi forsetans geti snúið úrslitunum.