Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, gagnrýnir mótmælendur sóttvarnaaðgerða í landinu harðlega fyrir að líkja sér við fórnarlömb nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Sakaði hann mótmælendurna um að gera lítið úr voðaverkum helfararinnar og því hugrekki sem andspyrnumenn í heimsstyrjöldinni hefðu sýnt.
Maas lét ummælin falla eftir að ung kona steig á svið á mótmælum í borginni Hannover í gær og sagði að sé liði „alveg eins og Sophie Scholl“. Scholl var háskólanemi sem nasistar tóku af lífi árið 1943 fyrir þátt sinn í andspyrnuhreyfingunni. Milljónir manna hafa horft á myndband af ræðunni á Youtube og hafa ummælin verið gagnrýnd víða.
„Hver sem á okkar tímum líkir sjálfum sér við Sophie Scholl eða Önnu Frank hæðist að hugrekkinu sem þurfti til að standa uppi í hárinu á nasistum,“ skrifaði Maas á Twitter. „Það gerir lítið úr helförinni og sýnir óbærilega gleymsku á sögunni. Ekkert tengir kórónuveirumótmæli við baráttu andspyrnuhreyfingarinnar. Ekkert.“
Wer sich heute mit Sophie Scholl o Anne Frank vergleicht,verhöhnt den Mut, den es brauchte,Haltung gegen Nazis zu zeigen.
— Heiko Maas 🇪🇺 (@HeikoMaas) November 22, 2020
Das verharmlost den Holocaust und zeigt eine unerträgliche Geschichtsvergessenheit.
Nichts verbindet Coronaproteste mit Widerstandskämpfer*Innen.
Nichts!