Möguleikum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að fá úrslitum forsetakosninganna fyrr í mánuðinum hnekkt fækkar enn eftir að kjörstjórn Michigan-ríkis kaus í dag að staðfesta niðurstöðu kosninganna í ríkinu. Joe Biden vann kosningarnar í ríkinu með 155.000 atkvæða mun.
Fulltrúar Repúblikanaflokksins í Michigan skrifuðu á laugardag bréf til kjörstjórnar ríkisins þar sem óskað var eftir því að staðfestingu á niðurstöðu kosninganna verði frestað um tvær vikur. Þrír af fjórum í kjörstjórn ríkisins kusu í dag að staðfesta niðurstöðuna, tveir demókratar og einn repúblíkani. Sá fjórði, repúblikani, valdi þann kost að sitja hjá.
Teymi forsetans hefur nú þegar tapað fjölmörgum dómsmálum þar sem reynt hefur verið að fá talningu atkvæða breytt til að snúa úrslitum kosninganna.
Í Arizona hafnaði dómari nýlega kæru um að farið skyldi aftur yfir atkvæði úr Maricopa-sýslu, þar sem höfuðborgin Phoenix er. Í Pennsylvaníu tapaði forsetinn málsókn um að 2.000 póstatkvæði skyldu ógild.
Á föstudag staðfestu yfirvöld í Georgíu sigur Bidens í ríkinu, en þar höfðu atkvæði verið endurtalin vegna þess hve mjótt var á munum. Biden hafði betur með 12.670 atkvæðum og varð þar með fyrsti demókratinn til að hafa betur í ríkinu frá því Bill Clinton bauð fram árið 1992.
Frétt Washington Post.