Valdaskiptaferlið geti hafist

Joe Biden, kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, kjörinn forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska stjórnvaldið sem fer með mál sem varða innsetningu nýs Bandaríkjaforseta tilkynnti Joe Biden í kvöld að formlegt valdaskiptaferli geti hafist.

Fréttastofa CNN greindi fyrst frá þessu og hefur birt bréf frá yfirmanni stofnunarinnar, Emily Murphy, til Biden. Stofnunin hefur ekki áður viðurkennt ósigur Donalds Trump Bandaríkjaforseta í kosningunum.

Var skipuð af Trump

Fram kemur í bréfinu að Murphy muni formlega viðurkenna sigur Biden. Í kjölfarið geti valdaskiptaferli hafist og ríkisstofnanir meðal annars hafið samstarf við þann hóp sem Biden hefur skipað.

Ákvörðun stofnunarinnar var tekin í kjölfar þess að Michigan-ríki staðfesti niðurstöðu kosninganna í ríkinu fyrr í kvöld. Búist er við því að Pennsylvanía staðfesti sömuleiðis niðurstöðu kosninganna á næstunni. 

Murphy, sem skipuð var af Trump á pólitískum forsendum, hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að neita að viðurkenna sigur Biden í kosningunum og þar með komið í veg fyrir að teymi kjörins forseta geti samræmt aðgerðir og fjárlög við ríkisstofnanir.

Forsetinn bregst við

Donald Trump hefur brugðist við þessum tíðindum og segir í tísti forsetans að hann telji enn að hann muni bera sigur úr býtum í kosningunum. Þrjár vikur eru á morgun síðan þær voru haldnar.

Hann bætir því við að hann hafi mælt með því við Murphy að gera það sem gera þurfi samkvæmt reglum um upphaf ferlisins, og að hann hafi fyrirskipað sínu starfsliði að gera slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert