Haldið í einangrun í ár

Nassima al-Sadi starfaði meðal annars sem dálkahöfundur áður en hún …
Nassima al-Sadi starfaði meðal annars sem dálkahöfundur áður en hún var handtekin. Hún á þrjú börn en fær ekki að hitta þau, ekkert frekar en aðra. Ljósmynd/Amnesty International

Nassima al-Sada hefur setið í fangelsi frá árinu 2018 í Sádi-Arabíu fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna og minnihlutahópa. Henni var haldið í einangrun í ár og mánuðum saman fengu hvorki börnin hennar né lögmaður hennar að vera í sambandi við hana. Mánuði áður en hún var handtekin höfðu yfirvöld í Sádi-Arabíu loks heimilað konum að keyra bifreið án þess að karlmaður væri með í bílnum. Eitthvað sem al-Sada hafði barist fyrir í mörg ár. 

AFP

Hún er ein af nokkrum þekktum baráttu­konum í Sádi-Arabíu sem kröfðust þess að konur fengju rétt til að aka bíl og sinna daglegum erindum án leyfis karl­kyns forráða­manns.

Lög í Sádi-Arabíu kváðu á um það að konur bæðu karl­mann um leyfi til að fara út og til ýmissa hvers­dags­legra athafna. Þrátt fyrir tilslak­anir á þessum lögum eru baráttu­konur sem börðust gegn forræði karl­manna enn á bak við lás og slá að því er segir í ákalli Amnesty International.

Nassima al-Sada hefur barist fyrir borgaralegum og pólitískum réttindum, réttindum kvenna og síja-múslíma sem eru í miklum minnihluta í Sádi-Arabía þar sem flestir landsmenn eru súnní-múslímar. Hún gaf kost á sér í sveitarstjórnarkosningum árið 2015 en var bannað að taka þátt. 

Nassima al-Sada var flutt á almennan gang í Al-Mabahith fangelsinu í Dammam í febrúar en hún var fyrst leidd fyrir dómara í júní í fyrra, tæpu ári eftir handtökuna. Annar hluti réttarhaldanna var 19. febrúar í ár en dómsuppkvaðningu, sem fara átti fram í mars, var frestað vegna Covid-19. Nassima al-Sada hefur ekki fengið frekari upplýsingar um framhaldið, ekkert frekar en lögmaður hennar eða fjölskylda. Lögmaðurinn hefur í raun aldrei fengið að hitta hana síðan al-Sada var handtekin fyrir 2 árum og fjórum mánuðum síðan. 

Áður en Nassima al-Sada var handtekin 31. júlí 2018 höfðu henni borist hótanir á Twitter. Í fangelsi hefur henni einnig verið hótað og hlekkjuð við stólinn í yfirheyrslum. 

Árið 2016 skrifaði Nassima: „Af hverju ætti piltur undir lögaldri að hafa forræði yfir full­orð­inni konu? Af hverju er ekki sjálfræðis­aldur fyrir konur svo þær fái að bera ábyrgð á ákvörð­unum sínum og lífi? Af hverju þarf karl­maður að bera ábyrgð á lífi konu?“

Nassima al-Sada er með lögmann en hún hefur aldrei fengið …
Nassima al-Sada er með lögmann en hún hefur aldrei fengið að hitta hann þessa 28 mánuði sem hún hefur setið á bak við lás og slá. Ljósmynd/Amnesty International

Nassima var hand­tekin fyrir frið­sam­lega mann­rétt­inda­bar­áttu sína í júlí 2018. Hún sætti illri meðferð í varð­haldi. Hún var sett í algjöra einangrun frá öðrum föngum frá febrúar 2019 til febrúar 2020. Hún fær að hringja viku­lega í fjöl­skyldu sína en fær engar heim­sóknir, ekki einu sinni frá lögmanni sínum, segir á vef Íslandsdeildar Amnesty International. 

Nassima al-Sada er mikill dýra­vinur og hún ræktaði garðinn sinn af natni. Hún ræktar meira að segja plöntur í fanga­klef­anum af alúð en það er eina samband hennar við umheiminn sem hún saknar sárlega segir á vef Íslandsdeildar Amnesty International.

Mál Nassima al-Sada er hluti af alþjóðlegri herferð þar sem þrýst er á stjórnvöld víða um heim. Hægt er að skrifa undir hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert