Þyrla náttúrufræðistofnunar Utah-ríkis flaug fram á einkennilega sjón í miðri eyðimörk við reglubundið eftirlit með sauðfé sem heldur sig þar til. Það var þó ekki kind sem menn rákust á, heldur eitthvað allt annað.
Rúmlega þriggja metra hár málmdrangur (e. metal monolith), grafinn ofan í jörðina svo að hann stendur teinréttur upp í loft. Sá sem fyrstur kom auga á málmdrangann stóðst ekki freistinguna að lenda við þennan forvitnilega málmstaur og skoða hann nánar.
Að því er fram kemur í umfjöllun New York Times sagði Aaron Bott, talsmaður Náttúrufræðistofnunnar Utah, í tilkynningu til fjölmiðla að málmdranginn hafi fundist á stað sem mjög erfitt væri að komast á bæði akandi eða gangandi, fjarri allri byggð, úti í miðri eyðimörk.
Hann bætti reyndar við að það væri alls ekki óvanalegt að sjá ummerki um eitthvað grunsamlegt sem fólk gerði úti í miðri eyðimörk en að þetta væri þó algjör undantekning.
Flugmenn Náttúrufræðistofnunarinnar voru skiljanlega gáttaðir er þeir flugu nær og lentu loks við hlið málmdrangans. „OK, einn okkar fer núna út og rannsakar þennan aðskotahlut úr geimnum,“ grínaðist einn. „Hver gerir svona lagað,“ bætti annar við.
Bret Hutchings, einn þyrluflugmannanna sagði við fréttastöðina KSL-TV að áhöfnin hafi grínast sín á milli að ef sá fyrsti sem snerti málmdrangann gufaði upp þá yrðu hinir að hlaupa eins og fætur toga í burt. Þar vísaði hann til hinnar ódauðlegu kvikmyndar leikstjórans Stanley Kubrick, 2001: A Space Odyssey. Í henni uppgötva forvitnir prímatar svartmattan steindranga eins og frægt er.
Umferðarlögreglan í Utah setti svo mynd af málmdrangnum á facebooksíðu sína og spurði hvað netverjar teldu þetta vera. Einn sagði „WiFi-beinir“ en annar „sjónmengun.“ Þá stakk einn upp á að þetta væri hluti sviðsmyndar úr bíómynd. Ekki svo galið, kvikmyndir á borð við Indiana Jones, Star Trek og Mission Impossible hafa verið teknar upp að hluta í eyðimörkinni í Utah.
Talskona Kvikmyndaráðs Utah sagði þó í tilkynningu að ekki sé vitað til þess að málmdranginn hafi verið skilinn eftir af kvikmyndaframleiðendum fortíðar.
En margir vilja þó meina að þetta sé hreinlega bara listaverk. The Art Newspaper benti á að málmdranginn svipaði svolítið til verka mínimalistans John McCrackens, listaverk hvers eru á ábyrgð gallerís Davids nokkurs Zwirner. Hann sagði þó í tilkynningu að forsvarsmenn gallerísins væru á báðum áttum um hvort um verk McCracken væri að ræða, en sagði þó sjálfur „að hann væri sannfærður um að þetta væri eftir John.“
„Hver hefði haldið að árið 2020 ætti eftir fleiri óvæntar uppákomur handa okkur. Við sem héldum að við hefðum séð það allt. Förum og sjáum það!“ bætti Zwirner við.
Þá sagði Dan Toone, málmlistamaður frá Utah, að hann kannaðist ekkert við málmdrangann og hefði ekki hugmynd um hver stæði fyrir þessu.
Talsmaður almannavarna í Utah sagði í tilkynningu að yfirvöld væru sannfærð um að málmdranginn væri listaverk, þ.e. heiðarleg tilraun einhvers að listaverki, bætti hann svo við.
Hann sagði að augljóslega væri málmdranginn manngerður þar sem um ryðfrítt stál er að ræða. Svo sjást skrúfur og skil milli málmplatna sem ekki væri hægt að búa um nema með manngerðum tækjum og tólum. Hann var þó ekki eins viss um hvernig viðkomandi manneskjum tókst til að koma málmdranganum fyrir, mitt í eyðimörkinni.
„Einhver tók sig til og notaði steypuskurðartæki af einhverjum toga til þess að virkilega grafa ofan í jörðina, eiginlega alveg í sama formi og málmhluturinn sjálfur. Þetta er skrýtið, það eru vegir hérna nálægt en til þess að koma tækjum fyrir til þess að skera ofan í bergið og flytja málminn hingað, sem er 12 fet að hæð, er í það minnsta áhugavert.“
Yfirvöld hafa neitað að gefa upp nákvæma staðsetningu málmdrangans af ótta við að fólk fari sér að voða. Svæðið í kring geti verið hættulegt og líkur eru á að einhverjir sigli í strand í miðri eyðimörkinni og þurfi aðstoð við að koma sér aftur til byggða.