Ógleymanleg augnablik hjá Maradona

Diego Armando Maradona skráði nafn sitt á spjöld sögunnar þegar …
Diego Armando Maradona skráði nafn sitt á spjöld sögunnar þegar hann leiddi Argentínumenn til sigurs á HM í Mexíkó. Hér sést hann fagna með HM styttuna þann 29. júní 1986 eftir frækinn 3-2 sigur á Vestur-Þjóðverjum. AFP

Diego Armando Maradona, sem lést í gær 60 ára að aldri, var óumdeilt eitt mesta séní sem fram hefur komið á knattspyrnuvellinum. Hér má finna nokkur þeirra ógleymanlegu augnablika sem hann skapaði á ferlinum.

Upphitun meistarans fyrir leik með Napoli gegn Bayern Munchen í undanúrslitum Evrópukeppni félagsliða í Þýskalandi árið 1989 er fyrir löngu orðið sígilt myndefni þar sem Maradona dansar við lagið „Live is Life“ með austurrísku poppsveitinni Opus og leikur sér með boltann. Þetta er löngu áður en maður fór að sjá takt notaðan markvisst í upphitun leikmanna fyrir fótboltaleiki.

Frammistaða okkar manns gegn Englendingum í undanúrslitunum á Heimsmeistaramótinu í Mexíkó árið 1986 er fyrir löngu orðin goðsagnakennd. Miklu meira var í húfi en sæti í undanúrslitum. Þjóðirnar höfðu tekist á í Falklandseyja-stríðinu skömmu áður og samskiptin því við frostmark.

Maradona slökkti í Englendingum með tveimur mörkum sem enn er talað um. Fyrra markið skoraði hann með hendinni og situr það enn þann dag í dag rækilega í Englendingum. Sagan segir að þegar Maradona svaraði því til að þetta hafi verið „hönd guðs“ hafi hann átt við að þar með hefði réttlæti guðs náð fram að ganga eftir yfirgang Englendinga gagnvart Argentínumönnum. 

Seinna markið var svo eitt magnaðasta einstaklingsframtak sem sést hefur á knattspyrnuvellinum þegar Maradona fékk boltann á miðjum vellinum og tók á rás í átt að markinu og sveif framhjá hverjum varnarmanninum á fætur öðrum.

Þetta lítur furðulega áreynslulaust út þegar horft er á myndirnar en afrekið verður síst síst minna þegar haft er í huga að þetta gerist í seinni hálfleik um hásumar í hitamollunni í Mexíkó. Jafnan kallað „mark aldarinnar“. Það er nauðsynlegt að hlusta á argentínska þulinn þegar þetta er rifjað upp.

Síðasti leikur Maradona með Barcelona var í úrslitum spænsku bikarkeppninnar árið 1984 þar sem liðið mætti harðsnúnu liði Athletic Bilbao. Líkt og í flestum leikjum sem meistarinn spilaði voru helstu ráð varnarmanna til að hafa hemil á Maradona að brjóta á honum.

Einhver þyrfti að taka saman hversu oft kappinn var sparkaður niður í leiknum! Leiknum lauk með 1-0 sigri Bilbao en hans er þó helst minnst fyrir slagsmálin sem fylgdu í kjölfarið þar sem Maradona var fremstur í flokki og sýndi á sér hlið sem átti eftir að verða sífellt fyrirferðarmeiri á ferlinum. 

Þetta er eitt af þessum fótboltamyndskeiðum með afleitri tónlist sem vissara er að lækka í.


Þrátt fyrir alla sína hæfileika er ólíklegt að Maradona hefði orðið jafnmikil goðsögn og raun ber vitni hefði hann ekki leitt Argentínumenn til sigurs á HM í Argentínu árið 1986. Frammistaða Maradona á mótinu fór í sögubækurnar og þarna var hann á hátindi ferils síns 25 ára gamall.

Í þessari samantekt má sjá öll mörk hans og stoðsendingar í keppninni. Þar á meðal þegar Maradona, sem var strangri gæslu Lothars Mattheusar, lagði upp sigurmarkið í sögulegum úrslitaleik gegn Vestur Þýskalandi með glæsilegri stoðsendingu á Jorge Burruchaga á áttugustu og þriðju mínútu þegar staðan var 2-2 að viðstöddum 114 þúsund áhorfendum.  


   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert