Þýsk yfirvöld vinna að því að ríki Evrópusambandsins komist að samkomulagi um að skíðasvæði verði lokuð þangað til í byrjun janúar í þeirri von að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.
„Ég viðurkenni alveg að þetta verður ekki auðvelt en við reynum,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, eftir að hafa rætt við forystufólk þýsku sambandsríkjanna.
Hertar sóttvarnareglur hafa verið framlengdar í Þýskalandi þangað til 20. desember. Miðað við hertar reglur þar í landi mega að mestu fimm koma saman og aðeins fólk sem er búsett á tveimur stöðum. Börn yngri en 14 ára eru undanþegin. Þessar reglur taka gildi í næstu viku. Yfir jólin, það er frá 23. desember til 1. janúar mega 10 að hámarki koma saman í Þýskalandi.
Í fyrstu bylgju Covid-19 voru það einmitt skíðasvæði í Evrópu sem voru helsta uppspretta nýrra smita. Þaðan dreifðist veiran um alla álfuna.
Forsætisráðherra Ítalíu hefur þegar tekið undir þetta með Merkel, að fresta upphafi skíðavertíðarinnar. Hann segir að til þess að þetta gangi upp verði ríki Evrópu að standa saman.
„Ef Ítalía ákveður að loka öllum skíðalyftum án stuðnings frá Frökkum, Austurríkismönnum og öðrum löndum þá er hætta á að ítalskir ferðamenn fari utan og beri smit með sér heim,“ segir Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, í viðtali við La7 sjónvarpsstöðina.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, á ekki von á að skíðasvæði verði opnuð þar í landi fyrr en í byrjun árs að því er fram kom í sjónvarpsávarpi hans til þjóðarinnar á þriðjudagskvöld.
Austurrísk yfirvöld eru uggandi yfir þessari áætlun, að loka skíðasvæðum, og segir fjármálaráðherra landsins að ef ESB neyðir skíðasvæðin til þess að hafa lokað áfram þá verði ESB að greiða fyrir það. Austurrísk stjórnvöld eiga yfir höfði sér dómsmál vegna þess hvernig staðið var að málum í Ischgl skíðabænum en smit í 45 löndum eru rakin til svæðisins. Þar á meðal til Íslands.