Sænsk heilbrigðisyfirvöld reikna með því að önnur bylgja kórónuveirunnar í landinu nái hámarki um miðjan desember.
Þetta mat er byggt á nýju reiknilíkani frá embætti landlæknis í landinu, byggt á þeim tilfellum sem greindust fram til 6. nóvember.
Hver þessi hápunktur verður fer að langmestu leyti eftir því „hvernig okkur tekst að halda fjarlægð hvert frá öðru,“ sagði Anders Tegnell sóttvarnalæknir á blaðamannafundi.
Sænsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir viðbrögð sín gegn útbreiðslu veirunnar. Fjölmargir létust af völdum hennar í landinu frá mars þangað til í júní, eða yfir fimm þúsund en 10,3 milljónir manna búa í landinu. Frá júlí fram í miðjan október fækkaði dauðsföllum aftur á móti.
Síðan þá hefur fjöldi tilfella aukist mjög og undanfarnar vikur hefur dauðsföllum einnig fjölgað hratt. Á þriðjudaginn var tilkynnt um að 67 hefðu látist vegna Covid-19, sem þýddi að alls höfðu 6.622 látið lífið af völdum veirunnar.
Svíar hafa brugðist við stöðunni með því að herða takmarkanir á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti. Fólk hefur verið beðið um að forðast mannfjölda innanhúss og helst að halda sig almennt frá fólki, nema nánustu fjölskyldu.
Síðustu vikur hefur fjöldi þeirra sem mega safnast saman fækkað úr 50 niður í 8, auk þess sem sala á áfengi á veitingastöðum og börum hefur verið bönnuð eftir klukkan 22 á kvöldin.