Lyfjafyrirtækið AstraZeneca, sem hefur þróað bóluefni við kórónuveirunni í samvinnu við Oxford-háskóla, hefur gefið það út að mistök hafi átt sér stað við prófanir bóluefnisins. Miklar gleðifréttir bárust frá fyrirtækinu nýlega þegar það tilkynnti að bóluefni þess bæri árangur í um 90% tilfella og væri þar að auki hræódýrt, á pari við kaffibolla á kaffihúsi.
Nú er þó ljóst að mistök voru gerð í sambandi við stærð skammta sem einhverjum sjálfboðaliðum voru gefnir við þróun bóluefnisins. Í kjölfarið ríkir því gríðarleg óvissa um virkni bóluefnisins til langs tíma og ekki víst að það standist kröfur eftirlitsaðila.
Málið snýst í meginatriðum um þann mun sem var á skammtastærðum við bóluefnaprófanir AstraZeneca; sumum var gefinn lítill skammtur en öðrum stór. Svo virðist sem virkni minni skammtsins hafi verið meiri en 2.800 manns fengu þann skammt. Þá fengu 8.900 manns stærri skammtinn sem virtist ekki virka jafnvel og þykir það þversagnakennt.
Uggvænlegasta staðreyndin er sú að rannsakendur AstraZeneca og Oxford-háskóla segjast ekki sjálfir skilja þetta þversagnakennda misræmi.
Að því er fram kemur í umfjöllun New York Times segir Michele Meixell, talskona AstraZeneca, í tilkynningu að allar bóluefnaprófanir fyrirtækisins hafi verið gerðar við bestu mögulegu skilyrði og að gæði prófananna hafi verið tryggð.
Menelas Pangalos, framkvæmdastjóri lyfjaþróunarsviðs AstraZeneca, kom fyrirtækinu til varnar og sagði að utanaðkomandi verktaki hefði séð um skammtastærðirnar sem fóru úrskeiðis. Eftirlitsaðilum hefði verið gert viðvart um leið og mistakanna varð vart og þeir veitt leyfi til áframhaldandi prófana.