Tyrkneskur dómstóll dæmdi yfir 300 fyrrverandi flugmenn og aðra aðila í lífstíðarfangelsi fyrir aðild þeirra að blóðugri valdaránstilraun í landinu árið 2016 þegar steypa átti forsetanum Recep Tayyip Erdogan af stóli.
Fethullah Gulen, predikari sem býr í Bandaríkjunum og var eitt sinn samherji Erdogans, er sakaður um að hafa fyrirskipað valdaránstilraunina. Stjórnvöld í Ankara, höfuðborg Tyrklands, skilgreina hreyfingu hans sem hryðjuverkasamtök en Gulen, sem er 79 ára, neitar öllum ásökunum.
Yfir 251 lést og meira en 2.000 særðust í valdaránstilrauninni. Síðan þá hafa tyrknesk stjórnvöld handtekið tugi þúsunda andstæðinga sinna og dæmt fjölmarga í fangelsi.
Margfalda lífstíðardóma hlutu 27 fyrrverandi flugmenn í flugher landsins, sem vörpuðu sprengjum á Ankara, og annað fólk sem stóð á bak við tilraunina frá herstöðinni Akinci skammt frá höfuðborginni.
Í framhaldinu hlutu 337 manns lífstíðardóma fyrir morð, brot gegn stjórnarskránni og tilraun til að myrða Erdogan, samkvæmt skjölum sem AFP-fréttastofan fékk í hendurnar. Sextíu manns hlutu aðra, mislanga fangelsisdóma á meðan 75 til viðbótar voru sýknaðir.