„Ég gaf augu mín“

Gustavo Gatica.
Gustavo Gatica. Ljósmynd Amnesty International

Ekkert færir Gustavo Gatica sjónina aftur en þess er krafist að þeir sem skutu hann í augun og blinduðu verði látnir sæta ábyrgð. „Ég gaf augu mín svo fólk gæti opnað augu sín,“ segir Gustavo Gatica, rúmlega tvítugur sálfræðinemi í Chile.

Hann tók þátt í mótmælum í byrjun nóvember í fyrra í höfuðborg Chile, Santiago, ásamt milljónum öðrum. Verðhækkunum og ójöfnuði var mótmælt. 

Alls eru 460 mótmælendur með varanlegan skaða á augum eftir mótmælin sem hófust 18. október í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Mannréttindastofnun Chile. Í flestum tilvikum eru áverkarnir tilkomnir vegna haglaskots eða áhrifa frá því er lögreglan beitti táragasi á mótmælendur. 

Nú ári síðar segja sum þeirra að gjaldið hafi verið þess virði, þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem samþykkt var að nema stjórnarskrá landsins úr gildi, stjórnarskrá sem hefur verið í gildi frá tímum herforingjastjórnarinnar sem Augusto Pinochet leiddi á áttunda áratug síðustu aldar. Stjórnarskrá sem ól á misrétti að sögn mótmælenda.  Mótmælin vörðu í margar vikur og vöktu heims­at­hygli. 

Gustavo Gatica er blindur eftir að hafa verið skotinn í …
Gustavo Gatica er blindur eftir að hafa verið skotinn í augun á mótmælafundi í Chile í nóvember í fyrra. Ljósmynd Amnesty International

„Í örlaga­ríkum mótmælum í nóvember hlóð lögregla skot­vopn sín með hagla­skotum og skaut á mann­fjöldann sem var saman­kominn. Áður höfðu hundruð mótmæl­enda særst og hlotið augná­verka af völdum lögregl­unnar, næstum daglega. Þeir sem voru við stjórn­völinn stöðvuðu ekki lögregluna heldur leyfðu ofbeldinu að viðgangast óhindruðu.

Gustavo var meðal mann­fjöldans á mótmæl­unum í nóvember 2019. Hann var skotinn í bæði augun og blind­aðist varan­lega. Árásin varð að forsíðu­frétt víða um heim. Innan­húss­rann­sókn lögreglu í kjölfar skotárás­ar­innar leiddi í ljós að enginn lögreglu­maður bæri ábyrgð. Niður­stöður rann­sókn­ar­innar gáfu til kynna að mótmæl­endur hefðu sjálfir slasað Gustavo,“ segir í ákalli Íslandsdeildar Amnesty International.

Þann 21. ágúst, tveimur mánðum eftir að Amnesty upplýsti um tilraun yfirvalda til að hylma yfir með lögreglu, gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur lögreglumann „G-3“ sem skaut Garcia. Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International er greinilegt að saksóknari hafði kynnt sér gögn mannréttindasamtakanna miðað við orðræðu hans af þessu tilefni. 

Garcia er fæddu 28. nóvember 1997 og því 23 ára gamall. Eitt helsta áhugamál hans var ljósmyndun sem hann eðli málsins getur ekki lengur sinnt. Hann er einnig mikill tónlistaráhugamaður og spilar bæði á bassa og gítar. Hann er núna að læra að spila á trommur og píanó. Knattspyrnuáhugi er einnig til staðar og styður Garcia liðið Colo-Colo. Hann lék sjálfur körfubolta en ekki lengur því það var tekið frá honum þennan örlagaríka dag, 8. nóvember 2019.

Hér er hægt að kynna sér málin sem eru í brennidepli í árlegri herferð Amnesty í ár og skrifa undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert