Móðir 9 ára gamallar stúlku sem lést úr bráðri andnauð eftir ítrekuð astma-köst segist vonast til þess að niðurstaða dánardómsstjóra leiði í ljós að loftmengun hafi verið helsta skýringin á dauða stúlkunnar.
Ella Adoo-Kissi-Debrah lést í febrúar 2013 eftir að hafa ítrekað fengið alvarleg astma-köst á þriggja ára tímabili. Hún var flutt vegna þessa á sjúkrahús í 30 skipti á þremur árum.
Fyrir tveimur árum leiddi rannsókn í ljós að á sama tíma og stúlkan þurfti á sjúkrahúss innlögn að halda vegna astma voru loftgæði lítil, það er há gildi svifryks og köfnunarefnistvíoxíðs í andrúmsloftinu. Ef niðurstaðan verður sú að loftmengun hafi átt aðild að dauða hennar verður það í fyrsta skipti sem það er viðurkennt fyrir dómi í Bretlandi.
Móðir Ellu, Rosamund, segist vonast til þess að þetta verði niðurstaða dánardómsstjóra og loksins þá verði dánarorsökin staðfest. „Öll börn eiga rétt á að anda að sér hreinu lofti og ég endurtek þetta stöðugt því börn eiga ekki að deyja úr astma.“
Niðurstaða dánardómsstjóra árið 2014 var sú að astma hafi dregið Ellu til dauða. En eftir skýrslu sérfræðingsins var fallið frá þeirri niðurstöðu. Réttarhald hófst í málinu í dag og meðal þess sem þar er skoðað eru loftgæðin á þessum tíma. Fjölskyldan bjó í innan við 30 metra fjarlægð frá South Circular, fjölfarinni leið í Lewisham í suðvesturhluta London.
Frá því Ella lést hefur Rosamund Addo-Kissi-Debrah barist fyrir aukinni vitundarvakningu varðandi astma hjá börnum og mikilvægi þess að bæta loftgæði. Hún segir að mengunin nærri heimili fjölskyldunnar væri svo sannarlega ekki sýnileg en nauðsynlegt sé að stjórnvöld grípi til aðgerða til þess að bæta lífsgæði fólks sem býr við fjölfarnar götur.
Samkvæmt tölum frá borgarstjóranum í London og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru loftgæði undir heilsuverndarmörkum í 99% borga Bretlands.
Samkvæmt WHO dregur loftmengun um 7 milljónir jarðarbúa til dauða á hverju ári.