Biden vill Fauci með sér í lið

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, segist hafa beðið Anthony Fauci, sóttvarnalækni landsins, um að halda áfram störfum eftir að hann tekur við embætti og verða hluti af Covid-19-teymi sínu.

„Ég bað hann um að halda áfram í nákvæmlega sama hlutverki og hann hefur gegnt fyrir síðustu forseta,“ sagði Biden í viðtali við CNN, í ljósi þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf í skyn að hann ætlaði að reka Fauci eftir kosningarnar.

„Ég bað hann um að vera aðalheilbrigðisráðgjafi minn líka og hluti af Covid-teyminu,“ bætti Biden við.

Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna.
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna. AFP

Dró til baka gagnrýni á Breta

Fauci dró í kvöld til baka gagnrýni sína á bresku lyfjastofnunina eftir að hafa sagt að hún hefði samþykkt bóluefni lyfjarisans með of miklu hraði.

„Ég ber mikla virðingu fyrir því sem Bretland gerir bæði í þágu vísindanna og þegar kemur að regluverkinu,“ sagði Fauci við BBC.

„Ferlið tekur lengri tíma hjá okkur en í Bretlandi og þannig er raunveruleikinn bara,“ bætti hann við. „Ég ætlaði ekki að gefa í skyn að þeir hefðu gert þetta með einhverjum losarabrag jafnvel þótt það hefði komið þannig út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert